Bara að gera ykkur greiða

Vinkona mín átti einu sinni tengdamóður sem var mjög góð kona. Stundum of góð. Allavega áttaði vinkona mín sig á því hvað blessaðri konunni hlaut að líða illa í góðmennsku sinni, þegar barn sem hún þekkti ekki og hafði aldrei séð, hringdi í hana og þakkaði fyrir fermingargjöfina. Vinkona mín kom af fjöllum. Þetta var frænka mannsins hennar, hann hafði ekki séð hana síðan hún ver tveggja ára og vinkona mín aldrei. Þeim var boðið í fermingarveisluna hennar úti á landi. Hvorugt þeirra taldi þennan útskriftardag ókunnugrar telpu úr Þjóðkirkjunni, nógu mikilvægan til að taka þriggja daga frí og útvega gistingu úti í hundsrassi og auk þess voru þau frekar blönk. Þau ákváðu að senda skeyti og láta þar við sitja.

Vinkona mín tafsaði mig einhvernveginn í gegnum símtalið en ræddi alvarlega við sinn elskulega þegar hann kom heim. Hafði hann þá endilega viljað senda gjöf? Hafði hún tekið af honum ráðin án þess að átta sig á því hvað hún gat verið dóminerandi? Hvurslags eiginlega gunguháttur var það af honum að geta þá ekki bara sagt hreint út að hann vildi senda gjöf í stað þess að segja að hann væri hjartanlega sammála? Hélt hann að það væri skynsamlegt að fara á bak við hana með jafn ómerkilegan hlut? Hafði hún kannski látið að því liggja að hún réði þessu ein?

Ektamakinn vissi jafn lítið um málið og hún en þekkti móður sína orðið þokkalega vel. Hann hringdi í hana og fékk staðfest að hún hefði sent barninu gjöf í þeirra nafni. Hún var hrædd um að þau myndu gleyma því en vildi ekki vera að angra hann með því að minna hann á það, svo hún ákvað að gera þeim þennan greiða, var skýringin.

Best er að deila með því að afrita slóðina