Laust

Það er ekki hægt að vera hamingjusamur án ástar. Sama þótt þú lærir allar sjálfshjálparbækur veraldar utan að. Trúið mér, þær ljúga. Ef fólk væri hamingjusamt án ástar, væru allir einhleypir, því það er vissulega þægilegra og einfaldara líf. Ég endurtek, það er ekki hægt að vera hamingjusamur án ástar. Samt er reyndar alveg hægt að vera einhleypur án þess að visna upp af óhamingju. Það er ekkert auðvelt en það er hægt. Það er hægt að elska og vera elskaður þótt maður sé einhleypur. Ekki almennilega en samt nógu mikið til að lifa af.

Trixið er í því fólgið að elska laust. Heitt og innilega er í lagi; mikið, endilega; lengi? jájá ef maður ræður við það. En bara fyrir alla muni nógu laust til að maður klessist ekki. Söknuður er fyrsta merki þess að maður sé að byrja að klessa og þá er kominn tími til að slíta því. Bless rímar nefnilega við kless, sjáðu til. Alveg eins og ást rímar við þjást.

Aukatrix ef maður vill láta það endast aðeins lengur; ekki stunda kynlíf með viðkomandi. Ekkert heldur karlmanni jafn vel við efnið og að láta hann ekki fá það sem hann vill. Jájá það er fjárans leikaraskapur þegar þú þarft sjálf á kynlífi að halda en það virkar.

Af hverju gef ég körlum ekki sömu ráð? Þeir þurfa þau ekki. Karlmenn hafa minni áhuga á ástarsamböndum en konur, einfaldlega vegna þess að þeir hafa aldrei þurft að hafa neitt fyrir þeim. Lets feis itt. Ömmur okkar lásu bækur um það hvernig ungar konur ættu að hugsa og hegða sér til að vera gjaldgengar eiginkonur. Haltu kjafti og vertu sæt er meginþemað, skreytt með leiðbeiningum um það hvernig á að dekra við fenginn. Við nútímakonur erum bara ekkert skárri en ömmur okkar. Við lesum ennþá fleiri bækur sem eiga að kenna okkur að umgangast tegundina. Þeir eru þvílík eilífðar smáblóm þessar elskur að venjulegri konu dugar ekki minna en heilt bókasafn til að komast að því að eina leiðin til að njóta ástar, er sú að hegða okkur á svipaðan hátt og ömmurnar, bíða og brosa. Eini raunverulegi munurinn er sá að í dag er okkur ekki sagt að taka til áður en hann kemur heim og halda skoðunum okkar fyrir sjálfar okkur. Allur leikaraskapurinn er ennþá inni.

Hversvegna eru ekki skrifaðar bækur sem kenna karlmönnum hvernig á að umgangast konur? Ein einföld ástæða, þær seljast ekki. Karlmaður veit nefnilega að ef kona gefst upp á honum, verður alltaf einhver önnur sem kemur hlaupandi, af hjarta reiðubúin að læra nákvæmlega hvernig hann hugsar og laga sig að því. Hún mun halda aftur af sjálfstæði sínu og frumkvæði og leyfa honum að fara í veiðimannaleik og þegar hann hættir að nenna mun hún EKKI gera það sem allar þessar ágætu bækur ráðleggja, semsé að snúa við honum bakinu. Hún er nefnilega kona og honur vilja meira og eru reiðubúnar að leggja eitthvað á sig til þess. Hún mun því búa til einstefnusamband, sem hann getur hreiðrað um sig í ef honum þóknast, eins lengi og honum þóknast.

Það er hægt að komast hjá því að lenda í þessari gildru, bara með einu móti: ljúgðu því aldrei að sjálfri þér að þú sért í ástarsambandi. Samskipti þín við karlmann, hvort sem þau eru kynferðisleg eða ekki, eru ekki ástarsamband, fyrr en hann er sjálfur af eigin frumkvæði búinn að skipuleggja brúðkaup og auglýsa það meðal allra sem hann þekkir. Fram að þeirri stund er hann kannski besti vinur þinn í öllum heiminum og þú getur elskað hann alveg helling. En ef þú vilt komast hjá vonbrigðum, gættu þess þá að bindast honum ekki svo fast að það taki meira en hámark einn dag að losna úr flækjunni.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

1 thought on “Laust

 1. ———————————————————-

  Maður þyrfti kannski lesson í því hvernig á að höndla þennan rokgjarna og óútreiknanlega hlut sem ástin er. Ég hef þó náð réttri lögun eftir mínar klessur, hingað til…

  Posted by: Gillimann | 4.01.2007 | 15:53:01

  ———————————————————-

  eins og talað út úr mínu hjarta, amen systir!

  Posted by: baun | 4.01.2007 | 18:15:40

  ———————————————————-

  Þér eruð svo vitur kona, frú Seiðkerling.

  Posted by: Kyngimögnuð | 4.01.2007 | 21:27:15

  ———————————————————-

  Harðneskjulega er þetta mælt um okkur bræðurna og veit ég ekki hvort þetta getur gilt um þorra karlmanna, þótt vissulega leynist einhverjir þeirra þarna úti sem hegða sér svona. Nú þekki ég ekki inn á reynslu þína af þessum hlutu vinkona, en mín reynsla er allavegana sú að ég og margir af mínum vinum hafa mikið fyrir sínum samböndum og vinna af miklum heilindum í þeim.

  Getur hins vegar verið að þegar kona leggur svona mikið upp úr að þóknast karli alfarið, gangist hann upp í þeim lífsstíl og fari í það far sem hún hefur skapað honum? Á sama hátt geta konur dottið í það far sem karlar skapa þeim með sinni ástúð og meðvirkni.

  Ég held að ástæðan fyrir því að svona bækur seljast ekki fyrir karlmenn er sú að karlmenn almennt reyna að vinna samböndin samkvæmt eigin bestu vitund, þótt hún sé ekkert alltaf pottþétt, en við reynum bara það sem okkar takmarkaða innsæi segir okkur. Við treystum á það að ef við gerum okkar besta í sambandi muni það ganga upp og það þarf enga bók til. „All you need is love…“ 😉

  Posted by: Hr. Svavar | 5.01.2007 | 15:07:17

  ———————————————————-

  Eins og ég hef sagt þúsund sinnum eða oftar þá er oftar en ekki góð ástæða fyrir því karlmenn eru á föstu. Yfirleitt sú að þeir fúnkera í sambandi og leggja í það vinnu og alúð.

  Ef þú hinsvegar skoðar þá sem eru á markaðnum, þá er staðan þannig að einhleypar konur hafa um mun færri vænlega kosti að velja en karlar. Eftirspurn eftir þeim sem eru í lagi er meiri en framboðið.

  Á mínum aldri er venjuleg kona löngu komin með það á hreint að innsæi gagnast nákvæmlega ekkert þegar þessar undarlegu verur eru annars vegar. Því miður virðast allar þessar kennslubækur í því hvernig á að umgangast fyrirbærið ekki gagnast heldur nema þá að maður sé tilbúinn til að vera endalaust í einhverjum leik.

  Verst að leikirnir virka bara ekki heldur því ef gaurinn er nógu fatlaður til að falla fyrir konu þegar hann þarf að eltast við hana en missir áhugann ef hún er nógu skotin í honum til að sýna það er sambandið ekki byggt á heiðarleika. Maðurinn sem þolir ekki að kona taki frumkvæðið mun hvort sem er, (rétt eins og aðrir sem vita að þeir eru nógu heillandi til að konur muni alltaf gefa þeim séns) fyrr eða síðar hafna henni með einhverri þvælu á borð við „þú ert æðisleg ég er bara of upptekinn til að vera í sambandi“ eða „ég elska þig alveg en ég er haldinn svo ægilegri skuldbindingarfælni“. Ég held því að það sé allt eins árangursríkt að vera bara sjálfum sér samkvæmur.

  Posted by: Eva | 5.01.2007 | 16:20:50

Lokað er á athugasemdir.