Nú er nóg komið!

Lauslega áætlað hef ég, á síðustu 9 dögum, troðið í minn litla skrokk tæpu kílói af kjöti, minnst 200 gr af feitum osti, hálfum lítra af rjóma og öðru eins af ís, lítra af borðvíni og 1 dl af púrtvíni, þremur lítrum af kaffi og 500 gr af súkkulaði, fyrir utan mjólk, smjörsteikt grænmeti og hvítt brauð (líka með smjöri). Lítið hefur hinsvegar farið fyrir jurtaseyði, hráu grænmeti og ávöxtum og þótt rækjur séu kannski skárri en kjöt geta þær tæpast talist heilsufæði þegar búið er að kaffæra þær í mæjonesi og sýrðum rjóma. Á þessum tíma hef ég borðað samtals eina máltíð sem er beinlínis hægt að kalla heilsusamlega.

Ég gerði ekkert menningarlegt, ég endurtek ekkert. Horfði ekki einu sinni á sjónvarpið nema bara áramótaskaupið og fréttaannálinn. Eina hreyfingin sem ég hef fengið er hæg ganga, í mesta lagi 3 km. Ég beygði mig 5 sinnum til að setja í þvottavél og sneri úlnliðnum ca 10 sinnum þegar ég hrærði í sósupottinum. Það þyngsta sem ég hef lyft allan þennan tíma er enska orðabókin og jú ég bar áramótakalkúninn frá ísskápnum að eldavélinni.

Ég svaf. Og svaf. Ég svaf fram eftir og las, lagði mig, bloggaði og lagði mig svo aftur. Hélt þrjú matarboð og fór í tvö sjálf, og svaf svo meira.

Ég lít að vísu á jól sem löglega afsökun fyrir að slappa af en en fyrr má nú rota en dauðrota. Ég geri nú venjulega eitthvað fleira en að sofa á svona löngum tíma og borða yfirleitt svona einn og einn gúrkubita í bland við garnakíttið. Núna fannst mér ég þurfa svo rækilega á hvíld og kaloríum að halda að það var ekki fyrr en í kvöld sem mér fór að ofbjóða þetta bílífi.

Áramótaheitin mín verða tvö að þessu sinni. Ég ætla að venja dreifendur dagblaða og auglýsinga af því að fylla póskassann minn af rusli og ég ætla ekki að ganga svo hroðalega fram af mér þetta ár að ég þurfi virkilega á því að halda að ljúka því með 9 daga ofáti og aðgerðaleysi. Framvegis verð ég í fríi að meðaltali einn dag í viku, jafnvel þótt það kosti það að ég þurfi að taka lán til að standa undir launagreiðslum eða annarri þjónustu.

——————————————————————-

Ég styð þetta með vinnuálagið og held ég sláist með í hópinn.

Posted by: lindablinda | 2.01.2007 | 19:15:52

——————————————————————–

Mér sýnist þín jól hafa verið svipuð og mín 🙂 tek undir þetta með lindu, minnka vinnuálagið… mun reyna það sjálf líka.

Posted by: Sigga | 3.01.2007 | 0:02:16

Best er að deila með því að afrita slóðina