Sértæk menningarröskun

Ég ætlaði að bjóða Sveitamanninum mínum á tónleika í gær. Ólafur Kjartan var að syngja í Salnum og ég átti von á að hann yrði spenntur. Í fyrra fórum við á tónleika einu sinni til tvisvar í mánuði og hann naut þess greinilega mjög mikið en við höfum ekkert farið í vetur.

Reyndar lítið menningarlíf verið á heimilinu yfirhöfuð það sem af er vetri, leikhússkortin lítið verið nýtt hvað þá annað. Hann sýndi engan áhuga og samt hafði hann ekkert sérstakt að gera. Ég hefði áreiðanlega getað druslað honum með mér með smá ýtni en við fórum ekkert.

Við fórum í bíó í gærkvöld, sáum hrollvekju. Við Haukur höfum bæði gaman af svoleiðis lágkúru en hingað til hef ég ekki orðið þess vör að hrollvekjur höfði til Darra. Hann tók smávegis ljótumyndaflipp eftir að hann fékk leyfi til að horfa á þær, lagðist í þann hallærisþátt „strákana“ í nokkrar vikur fyrir 2 árum en hefur almennt haldið sig á öllu menningarlegri nótum. Það veldur mér dálitlu hugarangri að hin myndin sem drengurinn vildi sjá var JamesBond myndin. Úff!
Ég er að velta því fyrir mér hvort sé ástæða til að hafa áhyggjur af menningunni í honum.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Sértæk menningarröskun

  1. ———————-

    æi, veistu, þó maður sé hluti af hámenningarmafíunni eins og ég 😀 langar mann stundum bara í ruslfóður…

    Posted by: hildigunnur | 11.12.2006 | 9:01:27

    ———————-

    james bond er svo merkilegt menningarfyrirbrigði að það er engin ástæða til að hafa áhyggjur. gætu meiraðsegja orðið áhugaverðar umræður í kjölfar áhorfs.

    Posted by: fangor | 11.12.2006 | 9:15:49

    ———————-

    hef aldrei getað skrifað undir stóradóm um lág- og hámenningu, það er eins og að segja að einhver hafi vondan smekk af því að hann er ekki eins og þinn

    er Leoncie lágmenning og Diddú hámenning? hmmm…

    Posted by: baun | 11.12.2006 | 9:30:38

    ———————-

    Sammála baun. Menning smenning. Hef séð margt sem taldist vera menning en var bara hundleiðinlegt runk. Hins vegar hef ég haft gaman gott af ýmsu sem menningarvitar vilja kalla rusl. Hafðu engar áhyggjur, eftir því sem ég hef lesið eru synir þínir í góðum höndum uppeldislega séð.

    Posted by: lindablinda | 11.12.2006 | 10:20:16

    ———————-

    Ég hef stórkostlegar áhyggjur, þú ættir að fara með hann til sála 🙂

    Posted by: R 02 | 11.12.2006 | 10:52:12

    ———————-

    Lágmenning dagsins í dag er hámenning dagsins á morgun. Finnst samt vond þróun að unglingur sem getur valið milli Ólafs Kjartans og Saw 3 skuli taka síðari kostinn.

    Posted by: Eva | 11.12.2006 | 15:04:35

    ———————-

    Aðalmálið er að hann hefur skoðun á hvað hann vill sjá! Uppáhaldskennarinn minn í kvikmyndafræðinni var doktor í Dallas. Nauðsynlegt að blanda þessu öllu saman í góðan graut 🙂

    Posted by: Sigga | 12.12.2006 | 11:32:03

    ———————-

    Bond hefur fengið svaka góða dóma og er talin með allra bestu bondmyndunum. Ég styð því Darra í þessu vali og ætla reyndar sjálfur á hana í bíó 🙂

    Posted by: Þorkell | 12.12.2006 | 19:27:08

    ———————-

    tja, óli kjartan og sawww… skil aðeins betur!

    Posted by: hildigunnur | 13.12.2006 | 0:19:34

Lokað er á athugasemdir.