Jólaklám

Mér finnst alveg fínt að hafa jól, sérstaklega ef maður fær jólafrí. Það er jólaklámið sem ég þoli ekki. Endalaus geðbólga í tvo mánuði yfir hlutum sem skipta ekki máli. Ég er ekkert farin að jóla ennþá en ég ætla að jóla smávegis í næstu viku. Ef ég verð í stuði til þess. Að elska jólin er nefnilega ekki það sama og að runka sér í hel yfir þeim.

-Mér líður vel þegar eldhússskáparnir eru hreinir, EF ég get þrifið þá án þess að vaka við það heila nótt.
-Ósköp sætt að hafa ljósakeðju í stofuglugganum svona til að undirstrika að nú sé sérstakur tími svo framarlega sem það verður ekki að yfirþyrmandi ofhlæði. Ef það er þriggja daga vinna að koma draslinu upp og önnur eins törn að taka það niður aftur, vil ég frekar nota tímann í annað.
-Fínt að sleppa sér í væmni yfir einum jólatónleikum eða svo, bara ekki 16 klukkustundum af jólarokki á dag í 5 vikur samfleytt.
-Gaman að rölta Laugaveginn í tvo eða þrjá tíma og kaupa jólagjafir, EF er hægt að gera það án þess að fara yfir um af valkvíða og verða andvaka af fjárhagsáhyggjum.
-Nota fríkvöld til að baka smákökur EF maður sér fram á að þær verði étnar.
-Þegar strákarnir voru litlir bjó ég alltaf til piparkökuhús, þótt ég þyrfti að vaka við það af því að það vakti nógu mikla lukku til að vera þess virði. Ég myndi ekki nenna því í dag en ég mun áreiðanlega gera það þegar ég fæ barnabörn (sem mér sýnist ætla að dragast lengur en ég hef smekk fyrir).
-Mér finnst notalegt að kveikja á kertum og skera út laufabrauð með strákunum og einhverjum vinum og hef haldið fast við þann sið enda þótt helmingurinn af kökunum lendi í ruslinu upp úr áramótum, ég myndi hinsvegar ekki gera það ef það hefði meiri streitu en afslöppun í för með sér.

Semsagt, ég fíla alveg jólahald. Mér finnst bara eins og ánægjan af þessu öllu saman hljóti að snúast upp í andstæðu sína þegar fólk sekkur sér í örvæntingarfullt jólarunk. Allt samfélagið hreinlega gefst auglýsingaskruminu á vald og maður getur hvergi verið án þess að endalaust glys og glamúr, ærandi jólarokk og fullkomnunarstreita heltaki mann. Ég hef svo megna ímugust á þeim hugsunarhætti að meira sé aldrei nóg að mér verður bókstaflega flökurt við að koma inn í Kringlu í desember. Sumir eru hreinlega eins og klámfíklar, virðast ekki skilja tilganginn með því að krydda og skreyta. Reyna að kreista fram fullnægju með því að sukka í botnlausum gerviveruleika.

Hjá mér hafa jólin alltaf verið fullkomin. Líka þegar ég brenndi sykurinn og kom matnum ekki á borðið fyrr en kl 18:30. Það dó enginn úr hugri á meðan. Líka þegar ég bjó úti á landi og enginn hvítlaukur var til í Kaupfélaginu, ég sleppti honum bara. Líka þegar ljósaserían í stofuglugganum gafst upp á aðfangadagskvöld, það fékk enginn taugaáfall yfir því. Líka þegar ég var í fjárhagskröggum og gaf strákunum ömurlegustu jólagjafir ever, þeir sýndu alveg sömu gleði og þakklæti og öll hin árin. Líka þegar ég náði því ekki að þrífa á bak við eldavélina, ég gerði það bara eftir jól í staðinn.

Lykillinn að fullkomnum jólum er nebbblega sá sami og lykill að fullkomnu kynlífi;
– ekki byrja fyrr en maður er tilbúinn,
– hætta þegar maður er orðinn þreyttur,
– ekki gera það sem maður hefur ekki ánægju af,
– gera allt sem maður hefur gaman af en ekki svo lengi eða ákaflega að það verði vont,
– gera það með þeim sem manni þykir vænt um og ef það er ekki í boði, þá bara með sjálfum sér,
– ekki með þeim sem vekja manni depurð eða sektarkennd og gera til manns ósanngjarnar kröfur,
– ekki láta það snúast um stærðina, umhverfið eða tæknileg atriði heldur að líða vel saman,
– láta eftir sér að hafa húmor fyrir aðstæðum og sjálfum sér,
– ekki koma sér upp svo sterku „fetissi“ að allt verði ónýtt án þess,
– leyfa sér að vera hæfilega væminn á viðkvæmu augnabliki en ekki sleppa sér í langvarandi dramakast,
– aldrei, aldrei, aldrei fórna sálarró sinni fyrir eitthvað sem maður heldur að hljóti að tilheyra.

– Elska það en ekki naugða því,
– krydda það en ekki klæmast á því.

—————————-

takk, þessi pistill er SNILLD:D

Posted by: baun | 9.12.2006 | 11:22:02

—————————-

Svona á maður nákvæmlega að halda jólin!

Posted by: anna | 9.12.2006 | 16:04:36

—————————-

O hvða ég eeeeeelska þennan pistil. Ætla að lesa hann oft og aldrei gleyma.

Posted by: Barbie | 9.12.2006 | 23:49:30

—————————-

Mikið er ég sammála þér! Frábærlega vel orðað.

Posted by: Sigga | 12.12.2006 | 11:35:10

Best er að deila með því að afrita slóðina