Brauð og leikar

Hvílíkt veður, er þetta Ísland í september? Burðast með fangið fullt af mótmælaspjöldum upp Laugaveginn og þegar ég missi þau drífur að fólk sem er reiðubúið að taka hluta af byrðinni.

Þjóðin er á Hlemmi, m.a.s. langaamma drengjanna minna á tíræðisaldri. Sonur minn Byltingin dreifir mótmælaspjöldum og Huldumaðurinn minn er mættur á staðinn skrýddur gasgrímu. Þrátt fyrir þátttöku sína í aðgerðum aktivista er hann ennþá andlitslaus og ætlar greinilega að vera það áfram.

Af virðingu við Ómar hafa byltingarmenn sammælst um að vera ekki með nein læti og þjóðin mótmælir ekki, heldur býður þjóðarsátt af prúðmennsku sinni, lágt og hóflega á meðan þeir sem mótmælin beinast gegn sitja ótruflaðir heima og horfa á sjónvarpið. Ég yrði ekkert hissa þótt viðskiptaráðherra kæmi brosandi til að grilla pylsur ofan í þjóðina og Álgerður rétti Andra Snæ verðlaunagrip úr áli fyrir Draumalandið.

Ég er tilbúin til að hórast í kristindómi og þjóðarsátt. Ég skal syngja Öxar við ána, þann þjóðrembuhroða, ef það hefur eitthvað að segja en ég er vondauf um það. Held að okkur reyndist haldbetra að gera eitthvað róttækt. Taka fjallkonuna í óæðri endann á Austurvelli. Hálshöggva gínu og stjaksetja höfuðið, kasta fúleggjum í Alþingishúsið. Það hefði þó allavega verið táknrænt ef þjóðin hefði sameinast um að gyrða niður um sig á Austurvelli en það hefði ekki þótt kurteislegt.

Brauð og leikar. Skyldi birtingarmynd þeirrar strategíu nokkurstaðar í veröldinni vera greinilegri en á Íslandi? Það merkilegasta sem ég hef áorkað í lífinu er að ala upp tvo unga menn, sem eru lausir við þann hugsunarhátt. Sjálfstæða, ástríðufulla, agaða unga menn sem eru meðvitaðir um þá staðreynd að það er verið að drepa landið okkar. Tvo hugrakka menn sem skilja að Örlögin sem ollu stærsta hneyksli Íslandssögunnar hafa nöfn og kennitölur og heimilisföng.

Best er að deila með því að afrita slóðina