Strengurinn

Eva: Þú sem ert vitur. Getur þú sagt mér hverskonar fávitaháttur það er að halda alltaf áfram að treysta mannskepnunni, þótt reynslan sýni að fólk bregst?
Ljúflingur: Þeir sem treysta engum verða geðveikir. Þú ættir að vita það. Trixið er finna út hvar fólk er líklegast til að bregðast og hleypa því ekki inn á það svið nema reikna með því að það geti farið á versta veg.

Eva: Hvar mun ég bregðast þér?
Ljúflingur: Ég sagði „líklegast“, ekki „mun“. Ég held ekki að þú munir bregðast mér en ef það gerist hrynur heimurinn ekki.
Eva: Á hvaða sviði er ég líklegust til að bregðast þér?
Ljúflingur: Þú heldur þó ekki að ég sé svo óeigingjarn að taka áhættu á að missa þig með því að krefjast þess að þú sért fullkomin?
Eva: Það er engin krafa falin í því þótt þú segir mér hvað þú hugsar.
Ljúflingur:  Jæja, og hvað myndir þú gera við þær upplýsingar? Sætta þig við ófullkomleik þinn?
Eva: Nei, ætli ég reyndi ekki að laga mig.
Ljúflingur: Og ef ég treysti þér samt ekki hrynur heimurinn. Og ef ég treysti þér og þú stendur ekki undir því, þá hrynur minn heimur.

Eva: Hvernig ætli okkar samband væri ef við treystum hvort öðru fullkomlega?
Ljúflingur: Þá hefðum við gifst. Þú hefðir leyft mér að herða að kverkum þínum þar til þú misstir meðvitund. Og ég hefði drepið þig. Því þótt þú treystir mér fyrir postulínsbrúðunni í þér og fyrir lykilorðinu á tölvunni þinni og til að koma hlaupandi þegar þú kallar, þá veistu samt að þú getur ekki treyst mér fyrir lífi þínu.
Eva: Þá hlýt ég að elska þig ákaflega mikið fyrst við erum hér ein.
Ljúflingur: Ég veit ekki hvað það heitir en það er allavega strengur á milli okkar.

Best er að deila með því að afrita slóðina