Að búa við persónunjósnir

Það er langt síðan ég fékk staðfestingu á því að sími Byltingarinnar var hleraður. Hélt fyrst að þetta væri paranoja í honum en ég á vini á réttum stöðum og þetta ku víst vera tilfellið. Eða var það allavega um hríð. Hann ræðir ekkert sem máli skiptir í þann síma svo það er eins líklegt að menn telji tíma og fé lögreglunnar illa til þess varið að komast að raun um hvort þessi ógnvaldur þjóðarinnar ætli að hitta afa og ömmu eða kaupa skólabækur eftir hádegið. Auk þess var hann utan þjónustusvæðis og/eða hleðslulaus lungann úr sumrinu. Ég held því að hann sé laus við símatíkur Marskálksins í bili.

Við höfum hinsvegar ástæðu til að ætla að heimasíminn sé hleraður.

Nú skyldi maður ætla að það sé lítið mál að búa við persónunjósnir þegar maður veit af þeim og þetta breytir í raun litlu. Heimasíminn er hvort sem er aðallega notaður til að ræða hversdagslegustu hluti, svosem hver ætli að taka úr þvottavélinni, hver eigi að sækja hvern og á hvaða tíma.

Ég verð samt að játa að það er þrúgandi að vita að einhver á vegum valdstjórnarinnar sé að fylgjast með heimilinu. Þegar maður hefur svo til enga þekkingu á fjarskiptatækjum er öruggast að gera ráð fyrir að þau séu öll stórhættuleg.

Það er svolítið óhollt að þurfa að slíta símann og tölvuna úr sambandi og slökkva á öllum gemsum í hvert sinn sem einhver á heimilinu vill ræða einkamál. Heimilið á að vera griðastaður og þetta skemmir það konsept svolítið. Það var samt ekki fyrr en í gær, þegar vinur minn tók ósjálfrátt upp á þeirri rökvillu að hvísla í símann, minn einkasíma, sem ég ég tel mjög ósennilegt að sé hleraður, sem ég gerði mér almennilega grein fyrir því hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft að búa við skerta friðhelgi.

Best er að deila með því að afrita slóðina