Féll á eigin bragði

Sæti sölumaðurinn kom við hjá mér með verðlistann.

-Ég held ekki að sé mikið vit í því fyrir mig að auglýsa hjá þér. Það eru aðallega strákar sem lesa blaðið þitt en konur sem versla við mig, sagði ég.

-Það er bara af því að strákarnir vita ekki að það er hægt að fá virkilega paktíska galdra hérna og þú þyrftir einmitt að auglýsa það. Ég er strákur og ég er búinn að versla helling við þig, sagði sæti sölumaðurinn og bætti því við að reyndar læsu stelpur víst blaðið. Hann hefði lagt sæg af dræsum með brókarsóttargaldri sem hann keypti hjá mér og þær læsu allar blaðið. Ekki nóg með það, heldur væri hann nú búinn að finna dándikonu, einnig fyrir tilstilli galdurs úr Nornabúðinni og hún læsi líka blaðið.

-Það væri nú samt ekki mikið vit í því að kaupa auglýsingu bara af því að sölumaðurinn er sætur, sagði ég og velti því fyrir mér hvaða fáráðsháttur hefði fengið mig til að selja honum ástargaldra. Ég hefði átt að harðneita því að við ættum nokkuð slíkt og mæta svo heim til hans í górillubúningi. Svo skrifaði ég undir samninginn. Ég var nefnilega alveg búin að gleyma því að ég seldi honum líka atvinnugaldur -sem virkar svona ljómandi vel.

Eins gott að þessi auglýsing hafi töframátt. Annars mun ég neita að selja sætum sölumönnum nokkuð annað en sængurkonukörfu og hana þó því aðeins að þeir leggi fram vottorð um að barnið sé bæði fætt og feðrað.

Best er að deila með því að afrita slóðina