Greitt með ánægju

Afborgunin af námslánunum er svolítið stór biti en ég hef alltaf greitt þau með ánægju. Mig svíður í nískupúkann undan skattinum, af því að stór hluti hans fer í eitthvað sem ég er mótfallin en LÍN (þrátt fyrir margháttað bókhaldsrugl) gaf mér tækifæri sem ég verð alltaf þakklát fyrir. Ég naut hvers einasta dags í Háskólanum og það sem ég lærði þar nýtist mér í hvert sinn sem ég les bók, horfi á kvikmynd og set saman galdur, kvæði eða smásögu.

Ég er löngu hætt að réttlæta það að hafa farið í nám sem ég hef lítið nýtt í praktískum tilgangi. Mér finnst það bera vott um vonda gerð af heimsku að líta einvörðungu á menntun sem lykil að launuðu starfi. Það er alltaf hægt að finna einhvern sem vill borga manni fyrir að gera eitthvað en sumir virðast ekki reikna með því að þeir muni nokkurntíma eiga frístundir. Ég reikna með að lifa 20-30 ár eftir að ég hætti að vinna og þá ætla ég ekki að horfa á Leiðarljós.

Best er að deila með því að afrita slóðina