Þversögn unga eháeffsins

Ég játa á mig illt innræti; ég hef hugleitt möguleikann á að svíkja undan skatti. Ég er í þokkalegri aðstöðu til þess. Málið er hinsvegar að ég hef ekki efni á því, jafnvel þótt ég væri nógu spillt til að láta verða af því. (Takið eftir viðtengingarhættinum, véfréttin játar aldrei.) Ef maður ætlar að greiða skuldirnar sínar þarf maður víst að sýna fram á nógu háar tekjur til þess. Það er allavega lítill tilgangur í því að eiga pening en geta ekki notað hann til að greiða skuldirnar.

Líklega er það ekki alveg rétt að fólk verði ríkt á skattsvikum. Fyrst þarf maður að vinna eins og mófó og verða hóflega ríkur. Þ.e.a.s. nógu ríkur til að hafa efni á að svindla. Svo þegar það er komið getur maður kannski farið að rugla í skattstjóra og þá verður maður subbulega ríkur. Held ég.

Viðskiptafræði A 1:
Vinna mikið. Kaupa rauða kortið en ekki bíl. Ekki fá yfirdráttarlán. Ekki kreditkort. Ekki kaupa tölvu. Eyða litlu. Ekki kaupa bíl. Ekki taka neitt lán. Búa hjá pabba og mömmu eins lengi og maður kemst upp með. Ekki taka námslán. Vinna meira. Ekki kaupa bíl. Ekki kaupa tölvu, ein á heimili er nóg. Ekki kaupa bíl.

Viðskiptafræði A 2:
Láta pappírspassara gera skattaskýrsluna. Ekki taka lán. Borga skuldirnar sínar. Berjast gegn því með kjafti og klóm að krakkarnir kaupi tölvur og bíla. Eyða litlu, vinna mikið. Vinna meira. Ekki leyfa krökkunum að kaupa bíl. Vinna yfirvinnu. Ekki leyfa krökkunum að flytja að heiman. Vinna meira. Ekki skrifa upp á lán fyrir krakkana. Umfram allt; EKKI LEYFA KRÖKKUNUM AÐ KAUPA BÍL.

Í alvöru talað, þegar ungt fólk steypir sér í skuldir bitnar það á foreldrunum. EKKI leyfa þeim það jafnvel þótt þér sé sama um þau. Ekki ef þú vilt einhverntíma komast í þá aðstöðu að hafa efni á að svíkja undan skatti.

Best er að deila með því að afrita slóðina