EKKI AFTUR!

Hvað í fjandanum er eiginlega að mér? Heilabilun?

Þegar notalegur, glaðvær karlmaður, hjálpsemin uppmáluð og ekkert nema séntilmennskan, duglegur og kann á borvél, með fjármálin í lagi, ekkert óuppgert fyrrikonudrama, með heilbrigð og stálpuð börn, heilbrigð lífsviðhorf, reyklaus hófdrykkjumaður, snyrtilegur í umgengni og yfirhöfuð vænsti náungi, sýnir mér áhuga (einlægan áhuga en ekki kynferðislega áreitni) verð ég álíka ástríðufull og frosin ýsa.

Nákvæmlega þetta hefur gerst áður. Sem segir mér að ég er að gera eitthvað vitlaust, ekki veit ég hvað.

Ég hélt að með því að koma mér upp krónísku ógeði á ojmingjum, myndi ég um leið þróa með mér áhuga á almennilegum mönnum. Sú er þó ekki reyndin. Eins og ég er leið á því að vera ein, hef ég samt ekki minnsta áhuga á þeim körlum sem koma til greina. Þeir einu sem ég sé eru 10 árum yngri en ég og félagsleg staða þeirra þannig að ástarsamband er fyrirfram dauðadæmt.

Maður lærir alltaf eitthvað. 14 ára að þiggja aldrei áfengi af karlmanni sem þú vilt ekki sofa hjá. 16 ára að þiggja aldrei áfengi af karlmanni punktur. Á síðasta ári lærði ég að þiggja aldrei greiða af karlmanni sem ég vil ekki búa með. Ég hef grun um að lexía þessa árs verði sú að fallast aldrei á vinnuskipti heldur.

Best er að deila með því að afrita slóðina