Lenti í löggunni

Jamm, ég lenti sumsé í löggunni.

Við Anna fórum á djammið á föstudagskvöldið. Ég er ekki góð í því að djamma. Held svei mér þá að ég hafi staðið mig betur í frystihúsinu á Tálknafirði forðum daga (aldrei hefur hæfileikaleysi mitt rist dýpra, hvað þá áhugaleysið) og fór heim edrú, ein og með sjálfstraustið í molum. Reyndi að sannfæra sjálfa mig um að færni manns til að skilja skemmtanagildi þess að öskra upp í eyrun á ókunnugu fólki, jafnframt því að berjast gegn súrefnisskorti og táraflóði af völdum reykeitrunar á þeim tíma sem náttúran ætlaði okkur að vera sofandi, væri ekki algildur mælikvarði á manngildi fagurrar konu. Það mistókst.

Reyndar var það meðvituð ákvörðun að vera edrú. Að vísu hefði ég getað gist í bænum svo bíllinn var engin afsökun en ég hef aldrei gengið á pinnahælum fyrr, er ekki líkleg til að verða America´s next top model út á göngulagið og taldi litla skynsemi í því að æfa mig undir áhrifum. Auk þess er ég kvenna leiðinlegust með víni og tilgangurinn var í og með sá að vekja aðdáun fagurra manna (sem reyndar virðast ekki fylla fjölmennan flokk djammara) en ekki viðbjóð. Einnig spilar inn í dulmálið á djamminu þar sem „má ekki bjóða þér drykk“ merkir „viltu vakna andfúl og ógeðsleg með þynnkuskitu í mínu rúmi á morgun?“ og ég hitti engan sem hafði þau áhrif á hormónastarfsemi mína.

Hvað um það, þegar kokhreysti mín var á þrotum, tiplaði ég á pinnahælunum út í bíl. Að ganga á pinnahælum er nógu erfitt, að aka á þeim er annað mál og verra. Þessvegna var ég að sjálfsögðu með flatbotna skó með mér.

Þar sem ég stóð á öðrum fæti og hélt mér í bílinn, á meðan ég skipti um skó, tók ég eftir því að tveir barþjónar voru greinilega að fylgjast með mér. Frá þeirra sjónarhorni gátu þeir ekki séð návæmlega hvað ég var að gera. Hafa væntanlega bara séð mig riðandi upp við bílinn og setjast svo inn í hann. Ég sá þegar annar þeirra tók upp síma og hugsaði sem svo að hann væri líklega að tilkynna ölvunarakstur. Ekki er ég hissa, það hefði ég líka gert í hans sporum. Að vísu fannst mér út af fyrir sig slæmt til þess að hugsa að löggumann færi að eyða dýrmætum tíma sínum í mig, sem var ekki drukkin og á meðan færi kannski einhver blindfullur vitleysingur fram hjá þeim, en hvað átti ég svosem að gera? Hendast inn á barinn og reyna að hindra þjónana í því að hringja? Ekki hafði ég neitt að fela, bíllinn í góðu lagi og ég líka svo ég bara ók af stað.

Í Hafnarstrætinu reyndi strákur að stoppa mig með miklu handapati. Að vísu er ég alveg þessi týpa sem býð fólki far en hann var áberandi drukkinn svo ég bara vinkaði að ók fram hjá. Eftir á að hyggja hefur hann líklega viljað mér eitthvað allt annað.

Þeir stoppuðu mig með blikkljósum á versta stað. Ég hef oft áður verið stoppuð með blikkljósum (enda jafnan á bíl ef ég geri tilraun til að skoða næturlífið, edrú að sjálfsögðu), en alltaf fengið færi á að aka út í kant í stað þess að valda umferðaröngþveiti. Venjan er líka sú að einn löggi komi og spyrji með mestu rólegheitum á hvaða “ferðalagi” maður sé. (Skilgreining lögreglunnar á “ferðalagi” er eilítið víðari en gengur og gerist.) Í þetta sinn komu fjórir löggukallar út, allir með gestapósvip á andlitinu. Ég hélt að þeir myndu nú kannski þiðna ögn þegar fullkomlega edrú kona, örugg til gangs á flatbotna eccoskóm stigi út úr bílnum og heilsaði þeim með virktum, en ekki aldeilis. Mér var húrrað inn í Svörtu Maríu, “ökuskírteini takk og blása fast og lengi”, sem ég og gerði á meðan tveir svartfuglanna stjákluðu í kringum bílinn minn. Ekkert ullabjakk í mínum andardrætti svo ég var spurð hvort ég væri þá undir einhverjum öðrum áhrifum. Setti þá að mér hlátur og ég spurði hvaða leikrit væri eiginlega í gangi, hvort ég liti virkilega út fyrir að vera dópuð. Því svaraði einn lögginn fúslega neitandi en í sama mund kom annar þungur á brún inn í bílinn með númeraplötu af bílnum mínum og sagði að hún hefði legið ofan á toppnum.
Eymingja löggarnir. Líklega hafa þeir fengið tilkynningu um að dauðadrukkin kona væri að aka Austurstrætið á númerslausum bíl. Ekki skrýtið þótt þeir hafi mætt mér sem heill flokkur. Sennilega hafa þeir búist við viðskotaillri fyllibyttu sem styngi úr þeim augun með pinnahælunum.

Mér var trúað þegar ég sagðist ekki kunna aðra skýringu á þessari undarlegu staðsetningu númeraplötunnar en að einhver hefði annaðhvort ætlað að ræna henni eða vera fyndinn. Svei mér þá ef þeir trúðu því ekki bara líka að ég væri ekki djönkari. Mér var allavega sleppt með loforði um að platan yrði fest á bílinn áður en ég legði í langferðir og gott ef vottaði ekki fyrir brosi hjá drengnum sem lét mig blása.

Af þessari sögu má læra að menn skyldu alltaf gá hvort númeraplöturnar séu á réttum stað, áður en þeir skipta um skó í Austurstrætinu.

Best er að deila með því að afrita slóðina