Áfangi

Í augnablikinu á ég engan ógreiddan reikning og er aðeins með íbúðar- og námslán á bakinu. Það er góð tilfinning sem ég upplifði síðast fyrir heilu ári. Þá tók ég lán til að opna búðina en nú er það uppgreitt! Vííí!

Þessi sæla mun að vísu ekki standa lengi því bráðum kemur næsti reikningur fyrir utanhússviðgerðunum upp á litlar 400 þúsund krónur og þær á ég ekki í smáaurabauknum. En hvað um það; er á meðan er og ég ætla að fagna þessum áfanga með því að eyða enn einu laugardagskvöldinu í vinnunni í stað þess að spranga um á pinnahælum -sem passa á mig. Það er greinilega það sem virkar. Synir mínir fæddust ekki með silfurskeiðar í trantinum en ég SKAL, að mér heilli og lifandi, afreka það að troða einni slíkri upp í hvorn þeirra áður en þeir yfirgefa móðurhús (eða öllu heldur móðuríbúð) yfir vetrarmánuðina líka.

Ásdís sagði um daginn að það færi kannski ekki vel saman að ætla að verða rík með því að vinna fyrir dæminu (í stað þess að fæðast til þess eða arðræna fátæklinga) og að kynnast frambærilegu eintaki af hinu loðnara kyni. Hún benti mér á að þegar minni langþráðu skuldleysisstöðu verður náð, verð ég ekki lengur ung og falleg. Ég hnussaði og sagði henni að fegurð mín hefði ekki aflað mér annars en tilfinningalega fatlaðra fávita hingað til og að ég væri alveg eins til í að leggjast undir hnífinn 55 ára eins og að fara með sömu fjárhæðir í villt skemmtanalíf (sem ég hef ekki einu sinni gaman af) 39 ára.

Sælir eru auðugir því þeir munu aldrei innheimtustofnunum kynnast.

Best er að deila með því að afrita slóðina