Óskarar

-Sumir í vinnunni hjá mér lesa bloggið þitt, segir Drengurinn sem fyllir æðar mínar af Endorfíni.
-Jæja, það var nú gaman en varla hefur þú verið að auglýsa mig? svara ég
-Nei, ég setti bara upp pókersvipinn þegar einhver fór að tala um þig í gær.
-Þannig að vinnufélagar þínir vita ekki að þú ert ein af aðalpersónunum í vefbókinni minni?
-Nei en ég held að það kæmi samt engum þeirra á óvart.

-Fæ ég einhverja dóma?
-Óskar segir að þú sért skrattakollur.
-Það var fallega sagt.
-Það er hrós þegar hann segir það. Hann er mikið fyrir skrattakolla hann Óskar.

Daginn eftir kemur óvenju huggulegur maður í Nornabúðina og kaupir tarotspil. Stoppar lengi. Áður en hann fer spyr hann hvað ég heiti.
-Eva, segi ég.
-Þannig að það ert þú sem skrifar sápuóperuna?
-Já,
svara ég.
Hann segir að myndin sé ólík mér svo hann hafi alls ekki verið viss en lætur vel af sápunni og kveður. Kemur aftur 10 mínútum síðar og spyr hvort ég vilji hitta sig á kaffihúsi eitthvert kvöldið í vikunni.
-Þaldénú! og spyr hann að nafni.
Hann heitir Óskar.

Fyrst hélt ég að Endorfínstrákurinn væri að reyna að koma mér á séns en hann þvertekur fyrir það og segir lýsinguna alls ekki passa við vinnufélagann.

Fishy things attract fishy things: Síðasta sunnudag hringdi í mig maður og kynnti sig sem Óskar. Ég hélt fyrst að ég væri að tala við mann sem ég fór út með í nokkur skipti einhverntíma á síðasta ári en hann hafði samband við mig eftir að hafa lesið sápuna mína. Það var þó ekki hann heldur Skari múrari sem hvarf sporlaust fyrir tveimur árum en hefur alltaf lesið bloggið mitt af og til. Á miðvikudaginn fékk ég tölvupóst frá einn einum Óskarnum sem er líka dyggur lesandi minn.

Lesendur mínir heita sumsé iðulega Óskar. Það hlýtur að vera tákn um að maðurinn sem ég óska mér sé á næstu grösum.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Óskarar

  1. ————————————————-

    Óvenju huggulegur maður!!!!
    Ég þakka!
    Kv. Óskar 🙂

    Posted by: Óskar | 15.07.2007 | 0:48:46

    ————————————————-

    ekki þverfótað hér fyrir skörum óskara;)

    Posted by: baun | 15.07.2007 | 12:40:07

    ————————————————-

    Þú hefur sem sé hlotið Oskarinn – meira en marga hefur dreymt um.

    Posted by: Ragna | 15.07.2007 | 19:55:36

Lokað er á athugasemdir.