Meðan hárið er að þorna

Mér líður illa í mannþröng en magadansstelpurnar voru samt þess virði. Helga Braga eins og sveitt fjósakona innan um þessa álfakroppa. Fóstbræður fara henni betur. Kræst hvað mig langar á fleiri námskeið. Ég á m.a.s. nýtt peningabelti sem ég hef aldrei notað.

Hendurnar á okkur eins og frostpinnar, svo við fórum inn á kaffihús og eftir aðeins 40 mínútna setu lykta ég eins og skítahaugur. Fallegi kjóllinn minn sem ég var að nota í fyrsta sinn, kápan, nærfötin og hárið á mér. Frekar írónískt að augnrennsli, andnauð og óþefur skuli vera helstu merki þess að maður hafi orðið fyrir aðkenningu að félagslífi.

En sótthreinsun er lokið og Elías á leiðinni. Yndislegt að þekkja einhvern sem getur deilt með manni rúmi án þess að reka kjánaprikið á sér utan í mann í tíma og ótíma. Ég þarf að vinna minnst 6 tíma á morgun og hef ekki fengið frídag síðan um páska en skuldastaðan stefnir líka hraðbyrði í kökusneið. Handrit að rúnabók tilbúið. Meðvirkni minni við margháttaðri geðsýki hér með lokið. Matarboð annað kvöld.

Þetta eru góðir dagar.

Best er að deila með því að afrita slóðina