Sundlaugarsaga

Þessi saga er tileinkuð félagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar

Barnið kastaði sér skríkjandi út í djúpu laugina. Ekki með kút og ekki einu sinni kork og ekkert benti til þess að það kynni að synda. Barnið sökk en skaut upp aftur, virtist skemmta sér prýðilega og ekki gera sér minnstu grein fyrir hættunni.

Aðrir sundlaugargestir horfðu agndofa á barnið og einhver spurði hvar foreldrarnir væru. Enginn kannaðist við að eiga krógann og hölluðust flestir að því að hann hefði farið í sundlaugina í leyfisleysi.
-Einhver verður að gera eitthvað sagði einhver, og einhver annar sagði að sundlaugarverðirnir hlytu bara að gera eitthvað. Svo fóru þeir aftur að synda, ræða pólitík í heita pottinum eða liggja í sólbaði. Sundlaugarverðirnir gerðu hins vegar ekki neitt, enda voru þeir staddir inni á skrifstofu á samráðsfundi um öryggismál í sundlaugum og höfðu enga hugmynd um að smábarn hefði kastað sér í laugina.

Svo vildi til að einn gestanna, maður að nafni Friðþjófur var haldinn krónískri afskiptasemi. Hann skorti þennan dásamlega mannlega hæfileika til að einbeita sér að sínum eigin málum og láta aðra um sitt. Friðþjófur tók málið í sínar hendur og dró barnið æpandi og spriklandi yfir í grunna hluta laugarinnar. Hann gerði sér svo lítið fyrir og truflaði fundinn til að gera sundlaugarvörðunum viðvart.

Sundlaugarvörðurinn klóraði sér í hausnum á meðan hann horfði á barnið hanga við bakkann.
-Ég ber enga ábyrgð á þessum krakka. Hann er of ungur til að vera hér eftirlitslaus og ekki hef ég hleypt honum inn, sagði sundlaugarvörðurinn.
-Hann er nú hérna samt, var m.a.s. í djúpu lauginni og virðist töluvert líklegur til að drekkja sér, það hlýtur að vera í þínum verkahring að stöðva það sagði Friðþjófur.
-Í MÍNUM verkahring! Foreldrarnir áttu bara ekkert að hleypa barninu út.
-Það getur vel verið að þeir eru ekki hér svo þú verður að gera eitthvað í málinu, svaraði Friðþjófur.
-Ég veit ekki hvað ég ætti að gera í því, ég er bara ráðinn til að hafa eftirlit með grunnu lauginni sagði sundlaugarvörðurinn.
-Krakkinn ER í grunnu lauginni, sagði Friðþjófur.
-Já af því að þú smyglaðir honum þangað, hann var í djúpu lauginni, hvað varst þú annars að skipta þér af þessu? sagði sundlaugarvörðurinn.
-Hvað étti ég að gera? Það eru fjandinn hafi það meiri líkur á að honum verði bjargað hér
-Hann getur líka drukknað hérna og þetta bara er ekki mitt mál. Geturðu ekki bara komið honum aftur yfir í djúpu laugina?
-Áttu við að sé skárra að hann drukkni í djúpu lauginni?
-Já miklu skárra,
svaraði vörðurinn, -það er nefnilega hann Guðmundur sem ber ábyrgð á djúpu lauginni en ekki ég.

Friðþjófur sá að ekki tjóaði að ræða við sundlaugarvörðinn og fór sjálfur að reyna að draga barnið upp úr lauginni en þá kom vörðurinn askvaðandi og tilkynnti að allt ofbeldi væri harðbannað í sundlauginni.

-Hann er ósyndur. Hann getur dáið ef enginn gerir neitt, sagði Friðþjófur og var nú farið að síga verulega í hann.
Sundlaugarvörðurinn sá að það var alveg rétt og að það myndi kosta hann heilmikið vesen ef barnið drukknaði á hans svæði, jafnvel þótt hann bæri enga ábyrgð á því. Hann klóraði sér ögn í kollinum og hugsaði sig um stundarkorn. Svo tók hann barnið og henti því út í djúpu laugina.

-Talaðu frekar við hann Guðmund, ég sé nefnilega bara um grunnu laugina en Guðmundur um þá djúpu. Krakkinn vill hvort sem er frekar vera í djúpu lauginni, sagði sundlaugarvörðurinn. Svo fór hann inn á skrifstofu til að skrifa greinargerð um öryggisgæslu í sundlaugum og svaraði hvorki dyrabjöllu né síma þegar Friðþjófur reyndi að ná tali af honum.

Best er að deila með því að afrita slóðina