Ég um mig til minnar listsköpunar

Það er nú mannsins eðli að álíta sjálfan sig áhugaverðusta einstakling á jarðríki. Flestir hafa mikla þörf fyrir að tala um sjálfa sig (annars þrifust ekki allar þessar bloggsíður) og sumir eiga svolítið erfitt með að átta sig á því að allir hinir hafa þessa sömu þörf fyrir að tjá sig um sjálfa sig. Mikilvægasta orð í heimi er „ég“.

Við erum næstum öll sjálflæg og það er eðlilegt. Þessvegna hlusta ég stundum á aðra þótt áhugi minn sé takmarkaður. Stundum ristir samnúð mín ekki mjög djúpt en hef töluvert umburðarlyndi gagnvart börnum, fötluðum og fólki sem líður illa. Þegar einhver mér minni máttar eða einhver sem hefur orðið fyrir áföllum eða á í alvörunni bágt, hefur mikla þörf fyrir að tala um sjálfan sig, þá hlusta ég. Ég nenni því að vísu ekki mjög lengi ef viðkomandi lítur á sjálfan sig sem eilífðarfórnarlamb og sýnir engan áhuga á að breyta neinu, slíkt fólk er bara andlegar blóðsugur.

Ég er hinsvegar alveg að verða búin með umburðarlyndiskvótann gagnvart listamönnum sem geta rætt sín eigin verk (og þau sem enn eru óunnin) klukkutímum saman, með blik í auga og verða á svipinn eins og maður hafi svikið þá í tryggðum ef maður sýnir ekki sérstakan áhuga á því að kynna sér nýjasta afrekið til hlítar.

Er ekki rökrétt að álykta að ef einhver sýnir engin viðbrögð við listrænum afrekum manns, kynnir sér þau ekki að fyrra bragði, minnist ekki á þau þótt maður viti að viðkomandi hafi tékkað á þeim, spyr ekki út í þau, finnur afsakanir fyrir að skoða ekki meira eftir mann, brosir stirðlega ef maður vekur máls á umræðuefninu; listamaðurinn mikli ÉG, þá bara hafi viðkomandi ekki áhuga?

Best er að deila með því að afrita slóðina