Hugleiðing menningarvita

Aðdáendendaklúbburinn bauð mér í leikhús í kvöld. Ausa og Stólarnir. Ég hafði mjög gaman af Stólunum en Ausa er algert meistaraverk. Ilmur Kristjánsdóttir er … mér er orðvant og það gerist ekki oft; ég hef aldrei, aldrei séð annan eins einleik. Það vera allir að sjá þessa sýningu -það er skipun!

Kalli teymdi mig um allt í hléinu og kynnti mig sem ljóðskáld fyrir hinum og þessum listaspírum og meningarvitum, útlistaði meira að segja snilligáfu mína fyrir Vigdísi Finnbogadóttur, stikaði svo með mig í eftirdragi inn í frumsýningarpartýið eftir sýninguna og hélt áfram þar. Ég fer ekki auðveldlega hjá mér en ég var satt að segja dauðfegin að sleppa út.

Þetta er 6. leiksýningin sem ég sé síðan í september en auk þess er ég búin að sjá eina danssýningu og svo fór ég frumbyggjatónleikana í Salnum. Meðaltalið er sumsé tvær menningar á mánuði og í ljósi þess hve lítinn frítíma ég hef haft hlýtur það að teljast viðunandi.

Við fórum í bíó í gær og sáum Stuðmannamyndina. Úff! Mikil mistök hjá þeim að gera aðra mynd. Í fyrri myndinni voru töffarar að leika lúða en núna eru lúðar að leika einhverja allt aðra lúða en þá sem voru hetjurnar í fyrri myndinni. Auk þess er hún lítið fyndin, ekkert frumleg og tónlistin almennt léleg, úrelt og langt fyrir neðan þann standard sem maður hefði vænst af Stuðmönnum. Textarnir hreinlega sorglegir. Man aðeins eina hendingu sem mér fannst skondin; hann er að hugleiða í boði Flugleiða. Ekki beint hámenning í þessari vondu mynd og hún er hreint ekki í takt við tímann; gerið sjálfum ykkur þann greiða að fara frekar á Ausu og Stólana.

Best er að deila með því að afrita slóðina