Sumir bara ná þessu ekki

Ég er ekki símaglöð kona. Ég lít á síma sem öryggis og upplýsingatæki, ekki afþreyingartæki. Þeir sem vilja halda uppi einhverjum félagslegum samskiptum við mig verða bara vessgú að koma í heimsókn eða í versta falli hringja og segja hratt skýrt og skorinort, geturðu hitt mig á kaffihúsi í kvöld, ókei, bæ, sjáumst. Þetta vita allir sem þekkja mig. Nema sumir. Sumir bara ná þessu ekki.

Þar sem flestir sem ég þekki forðast að hringja í mig að ástæðulausu svara ég gemsanum mínum nánast alltaf. Ef ég svara ekki er það öruggt merki þess að ég er upptekin eða vil alls ekki svara. En sumir bara ná þessu ekki. Sumir bara gefast ekki upp og halda ótrauðir áfram að reyna að ná í mig, t.d. með því að hringja í vinnusímann.

-Rinnnng!
-Nornabúðin, Eva.
-Sæl.
-Sæl.
-Ertu í vinnunni?
-Já, ég er ALLTAF í vinnunni kl 4 á virkum dögum og auk þess hringdirðu í vinnusímann svo ég hlýt að vera hér.
-Æ já. Ég var að reyna að ná í gemsann þinn en það svaraðir aldrei.
-Nei, ég tók hringinguna af, ég má bara ekkert vera að því að tala í símann.
-Er svona mikið að gera?
-Já, það er bara vitlaust að gera, veitir ekkert af því að við séum báðar í afgreiðslu í augnablikinu.
-Jaaaá, mikið er gott að heyra að gengur svona vel hjá ykkur. Hvað er annars að frétta?
-Ekkert, þannig, ég er bara mjög upptekin.
-Láttu mig þekkja það. Ekkert að frétta af strákunum?
-Heyrðu ég verð að fá að tala við þig seinna, ég má bara ekki vera að þessu.
-Nú? Er svona mikið að gera?
-Já, það er í alvöru mikið að gera.
-Heyrðu ekkert mál, ég hringi bara eftir hálftíma.

Best er að deila með því að afrita slóðina