Beðið eftir Georgie

Á þeim tíma var margt öðruvísi, eiginlega allt. Nema sumt. Það breytist ekki.

-Það er svo skrýtið að dauðinn er það skiljanlegasta af þessu öllu, sagði ég við Carmen og heyrði að enskan mín var farin að smitast af spænska hreimnum hennar. Sagði henni svo að þótt hann væri dáinn væri ég í rauninni ekkert sorgmæddari en ég hafði orðið í öll skiptin sem við slitum sambandinu og að ég hefði dálítið samviskubit vegna þess.

Sagði henni svo líka að það versta væri að vegna þess að við höfðum, allavega að nafninu til, slitið því, hefði ég í raun ekki rétt til að syrgja hann nema þá bara sem kunningja. En syrgði samt og hafði samviskubit yfir því líka. Fannst undarleg klemma að geta ekki gert upp við mig hvort ég syrgði of mikið eða of lítið og var auk þess frekar upptekin af því hvort öðrum þætti ég annaðhvort kaldlynd eða sæju mig sem dramsjúkan tragedíurunkara.

Carmen tókst að leiðrétta þá villukenningu mína að sorg ætti að vera:
a)í rökréttu samhengi við veruleikann
b)öðru fólki þóknanleg
og það var nú heilmikið afrek hjá henni því ég var sjaldnast tilbúin til að bakka með það sem ég hafði bitið í mig.

-Ég frétti nú að hann hefði verið eitthvað með stelpunni á Húsavík í sumar, gjammaði Georgie sem hafði ryksugueyru og tókst iðulega að segja eitthvað fullkomlega óviðeigandi.

-Þegiðu Georgie og skammastu þín. Kærastinn hennar var að deyja og það er óþarfi að angra hana með svona getgátum, sagði móðir hans og kvað svo sterkt að orði að George setti upp snúð og strunsaði út úr eldhúsinu, eins og svo oft áður. Ég varð fegin. Mér þótti vænt um Georgie en krakkaskrattinn hafði engan skilning á því að mig langaði að tala við Carmen og var stöðugt að reyna að snúa talinu að mannkynssögu og vísindum sem var ekki á mínum óskalista yfir umræðuefni þessa stundina.

-Það undarlegasta af þessu öllu er samt að ég hef ekkert verið að leita að kærasta. Ég reiknaði einhvernveginn með því að þetta yrði bara tímabundið. En núna þegar hann er farinn að eilífu þá er það fyrsta sem mér dettur í hug að finna mér einhvern góðan strák og giftast honum, og samt finnst mér eins og það yrði einhverskonar framhjáhald, sagði ég.

Carmen leit mig þýðingarmiklu augnaráði og ég bjó mig undir skírlífispredikun með bahá´í-kaþólsku ívafi og vísunum í ímyndaða skynsemd mína og sjálfstjórn. Af einhverjum dularfullum ástæðum áleit Carmen að ég væri mikil fyrirmynd annarra unglinga hvað varðaði sjálfsaga og fyirhyggju. Hún nefndi ekki skírlífi einu orði. Horfði bara á mig og sagði:
-Ekki finna þér kærasta strax. Bíddu eftir Georgie. Þið eruð vinir og hann er góður strákur.

Ég skellti upp úr þrátt fyrir andlegt ástand mitt. Það var alveg rétt hjá henni. Georgie var góður strákur. Alveg ágætur 13 ára strákur.

-Það eru ekki nema fjögur ár á milli ykkar. Ég veit að það hljómar mikið í dag en eftir 3 ár verður hann tilbúinn og eftir 10 ár skiptir aldursmunurinn engu máli. Georgie er klár strákur, hann verður ríkur og það er bara gott fyrir þig að hafa forskot. Hann tekur mark á þér og þú getur mótað hann.

Já, þetta sagði nú elskan hún Carmen sem vildi fyrir alla muni fá mig sem tengdadóttur, ekki veit ég af hverju. Ég brosti út í annað og hristi höfuðið yfir fáránleika hugmyndarinnar.

Viku síðar hitti ég Hilmar og tæpum 7 mánuðum eftir andlát vinar míns giftist ég honum. Ég eignaðist með honum tvo yndislega drengi og Georgie var heimagangur hjá okkur á meðan við bjuggum í Hafnarfirði. Ég hef aldrei litið á það sem mistök að giftast Hilmari þótt kannski hefði verið skynsamlegra að hinkra þar til kransarnir fölnuðu á leiðinu. Það var gott á meðan það var og svo var það búið. Það kom nefnilega á daginn 4 árum síðar að í rauninni var hann ekki alveg tilbúinn í hjónaband. Ekki erfiða hlutann af því allavega. Ekki ég heldur ef því er að skipta.

Ég hef ekki séð Georgie í mörg ár en síðustu árin hef ég stundum velt því fyrir mér hvernig líf mitt hefði orðið ef ég hefði farið að ráðum Carmenar og beðið eftir Georgie.

Reyndar finnst mér stundum að allt mitt líf hafi ég verið að bíða eftir einhverjum eins og Georgie. Einhverjum sem er ósköp góður strákur en er bara ekki tilbúinn og ekkert hægt að gera í því nema bíða. Kannski hefðu þrjú ár bara dugað eftir allt saman.

Best er að deila með því að afrita slóðina