Snúður kemur í heimsókn

-Merktu mig, segir Elías og faðmar mig að sér
-Merkja þig? Eins og krakkar gera?
-Já, merktu mig með litlum rauðum bletti.
-Oj, það er subbulegt.
-Ég veit, merktu mig. Ég ætla að merkja þig líka, bara ekki þar sem það sést.
-Þú elskar mig.
Hann horfir í augu mín, sposkur.
-Gerirðu það Eva? Elskarðu mig?
-Efastu?
-Neei, já, ég veit það ekki. Þú virðist ekkert sakna mín.

Sakna ég þín? Já, sjálfsagt geri ég það en það er tilgangslaust að velta sér uppúr því. Þegar ég var lítil las ég Mary Poppins og bækurnar um Múmínálfana aftur og aftur. Ég skildi svo vel óþreyju Múmínsnáðans þegar hann beið endukomu Snúðs á vorin, söknuð hans þegar hann kvaddi næsta haust. Ég vissi líka að það hefði verið ósanngjarnt af honum að biðja hann að hætta að ferðast. Snúður kom líka alltaf aftur. Eins og Mary Poppins, Gandálfur og vorið.

Og þannig er sumt fólk. Það þarf að fara og ekkert við því að segja. Múmínsnáðinn bíður Snúðs með óþreyju en ég er ekki Múmínsnáðinn heldur Mía litla. Og Mía litla tekur hlutunum bara eins og þeir eru. Hún horfir á heiminn með íróníu þess sem alltaf finnur leið til að lifa af þrátt fyrir að hafa hvorki til þess líkamlegt atgervi né bjargarleysissjarma þess sem aðrir taka upp á arma sér.

-Ég þrái návist þína aðeins þegar ég veit að er von á þér, segi ég.
-Verðurðu þá ekki einmana þegar ég fer?
-Nei. Ekki meðan ég trúi því að þú komir aftur.
-Ég er með álfablett eftir þig, auðvitað kem ég aftur.

Já Elías, ég veit að þú kemur aftur og finnst það gott en ég sakna þín ekki. Reyndar er það svo að Mía litla vill helst vera hjá Snúði þótt hún sæki það ekki fast. Kannski reiknar hún með að hann tæki hana á öxlina af sjálfsdáðum ef návist hennar skipti hann virkilega máli.

Best er að deila með því að afrita slóðina