Hressmann

Undanfarið hef ég verið svo rotuð á morgnana að ég hef ekki komið mér fram úr fyrr en upp úr kl 7. Þótt ég sé morgunhýr að eðlisfari verð ég að viðurkenna að ofþreyta eyðileggur alveg þann taumlausa fögnuð sem venjulega fylgir því að hefja hringrásina vinna-þvottur-önnur vinna-Bónus-matseld, meiri vinna. Það er sem ég segi; svefnóreiða kann ekki góðri lukku að stýra til lengdar og hefur undarlegustu atvik í för með sér.

Ætli það hafi ekki verið á þriðjudaginn í síðustu viku sem gsm-síminn minn hringdi 5 mínútur yfir 7, einmitt þegar ég lá og var að reyna að herða mig upp í að fara fram úr og ræsa krakkana. Ég kannaðist ekki við númerið en svaraði með nafni. Heyrði sjálf að „morgunbjört og fögur“ var allavega ekki raunsönn lýsing á rómi mínum. Á línunni var karlmaður, sennilega um þrítugt og greinilega einhver gleðskapur í gangi á bak við hann. Kannski var þetta árrisull gleðipinni sem býður vinum sínum til morgunteitis í miðri viku.

-Er þetta Eva Hauksdóttir? spurði hann. Ég játti því og bað hann að segja deili á sér. Það gerði hann reyndar ekki en kvaðst hafa fundið nafnspjaldið mitt hjá íbúðalánasjóði, án þess að því fylgdi útskýring á erindinu. Ég sagði honum að það gæti nú ekki staðist þar sem ég ætti ekkert nafnspjald og hefði aldrei átt. Átti von á að hann bæri upp erindið í framhaldinu en hann spurði bara hvort hann væri að trufla mig.
-Ekki beinlínis en ég var nú bara að vakna, sagði ég, sennilega með takmarkaðri kæti.
-Má ég spyrja þig að einu? sagði maðurinn og ég urraði til samþykkis.
-Ertu sigurvegari? spurði hann.
-Já, hreytti ég út úr mér og reyndi að rifja upp hvort ég gæti hugsanlega þekkt einhverja lúða sem stunduðu gleðskap um það leyti sem eðilegt fólk er að hita morgunkaffið, því gemsinn minn er ekki skráður og þegar ég átti síðast samskipti við íbúðalánasjóð var ég með annað símanúmer.
-Mig langar að bjóða þér út að borða, sagði maðurinn.
-Hvur ert þú eiginlega gæskur? spurði ég. Hann virtist eiga í vandræðum með að rifja upp hvað hann héti en stundi loksins upp nafni sem hringir engri bjöllu hjá mér.

Ég bað hann að hringja frekar um hádegið. Það gerði hann ekki enda sennilega sofnaður ofan í símaskrá íbúðalánasjóðs eða búinn að finna nafnspjald einhverrar morgunferskju sem skælbrosir framan í spegilinn á hverjum morgni og segir „ég er sigurvegari“, bleikum rómi.

Djöfull skal ég veðja að þessi drengstauli er nýbyrjaður í tengslamarkaðssetningu.

Best er að deila með því að afrita slóðina