Gandálfur kemur í heimsókn

Á morgnana hefur það oft gerst að fólk rjálar eitthvað við hurðina jafnvel þótt standi skýrum stöfum að búðin sé lokuð. (Við opnum ekki fyrr en kl. 14) Venjulega sinni ég því ekkert en í fyrradag var barið svo hraustlega á gluggann að ég hlaut að taka eftir því.

Fyrir utan stóð Gandálfur sjálfur, hávaxinn með sítt, hvítt hár, tekið saman í tagl að aftan, með langa sterklega fingur og andlit hans minnti öðrum fremur a Ian McKellen. Vantaði bara kufl og staf til að falla fullkomlega að ímyndinni.
-Þú munt vera galdramaður, sagði ég
-Rétt er það og á við þig erindi, svaraði Gandálfur. Það er gott að þú ert ekki búin að opna því þá fáum við frið til að ræða málin.Ég hleypti manninnum inn og gaf honum kaffi. Gleymdi að spyrja að nafni enda fannst mér Gandálfur duga.

Við töluðum saman nokkra stund. Hann sagði mér að hann hefði stúderað galdur í félagi við meistara minn Matthías Viðar og búið meðal indiána í nokkra mánuði. Hann dró svo spilastokk úr vasa sínum og bað mig að velja.
-Þú dregur fjórkrossinn. Frá honum liggja leiðir til fjögurra átta og hverja sem þú velur muntu enda á helgum stað. Hvert sem þú vilt geturðu farið, sagði Gandálfur og rétti mér spilin svo ég gæti skoðað þau betur. Dásamlega falleg spil. Bakhliðin með einum af stöfum Skugga sagði mér að þau hlytu að vera íslensk. Galdrastafina á framhlið þeirra hef ég marga séð áður en aldrei notað sjálf.

-Þessi spil verð ég endilega að fá fyrir búðina, þau myndu seljast vel, sagði ég. Gandálfur glotti.
-Þessi spil færðu aldrei fyrir búðina þína því þau eru ófáanleg. Í allri veröldinni er aðeins til þessi eini stokkur og þau verða aldrei fjöldaframleidd.
-Þú bjóst þau til sjálfur?
-Rétt til getið.

-Hvað heitirðu?
-Haukur.
Þá fyrst áttaði ég mig á því hvaða maður var mættur til mín í morgunkaffi og það með erindi sem fellur fullkomlega að þeim áætlunum sem við höfum gert fyrir næsta ár. Listamaðurinn góði sem alltaf hefur heillað mig en ég hef aldrei séð.

Heimsótti hann í musteri hans í gær og við mér blasti heill heimur, þrívíð mynd af leiksviðinu fyrir ævintýrið mikla sem ég hef séð fyrir mér svo lengi. Ég hef varið tugum klukkustunda við að láta mig dreyma um þetta mikla ævintýri en aldrei talið svo mikið sem fjarstæðukenndan möguleika að fengi að sjá það verða að veruleika.
Ég bar hugmyndina upp og -já.

-Það eina sem við þurfum er ein eyja eða fjallaþorp, sagði ég. Gandaálfur kinkaði kolli hugsi á svip.
-Heldurðu að ein eyja dygði?

Klukkutíma síðar kvaddi ég hann.
-Það er rétt, þú þarft ekki bara eyju, sagði ég að skilnaði, þú þarft heimsálfu.

Draumurinn um listamanninn mikla er kominn fram. Það var sumsé ekki Helgi hinn helgi, heldur Gandálfur hinn grái, galdramaðurinn sem fóðrar hrafna og ólíkt flestum athyglisverðum myndlistamönnum; býr til myndir sem maður vildi hafa heima hjá sér.

Fjórar leiðir og hvert sem ég fer verð ég heppin. Ekki sé ég þessar krossgötur í augnablikinu en um eitt efast ég ekki: Eitthvað stórkostlegt mun gerast í lífi mínu á næstu mánuðum.

Best er að deila með því að afrita slóðina