Af annmörkum ástargaldurs

Viðfang giftingaróra minna hefur opnað bloggsíðu aftur. Nú eru liðin meira en 2 ár síðan ég bað hans í bundnu máli. Þ.e.a.s. ef við yrðum bæði á lausu eftir 7 ár. Núna eru það bara tæp 5 ár og ekkert sem bendir til þess að ég verði gengin út að þeim tíma liðnum. Veit ekki hvernig staðan er hjá honum en sennilega er hann að bíða eftir engli með húfu og má þá bíða lengi. Nema hann vilji eina austurlenska sem heldur að Morkinskinna sé mygluð gólfmoppa.

Það er svosem nógur tími ennþá ég ætti samt eiginlega að kasta á hann ástargaldri til öryggis. Ég hef ekki reynt það vegna þess að sú aðferð hefur nokkra annmarka.

-Í fyrsta lagi hefur mér aldrei tekist sérlega vel upp með þá ástargaldra sem ég hef galað einhverjum sérstökum. Yfirleitt hefur galdurinn haft öfug áhrif, þeir hafa flúið land skömmu síðar.

-Í öðru lagi áttaði ég mig á því fyrir margt löngu að ástæðan fyrir því að mér hefur gengið illa að galdra til mín eigulega menn, þrátt fyrir afbragðs þekkingu á galdrinum, er sú að mér finnst siðferðilega rangt að beita galdri gegn sjálfstæðri hugsun, nema tilgangurinn sé verðskulduð hefnd. Þar með hefur vilji minn til að ná ástum mannsins verið of veikur en það er auðvitað viljinn sem knýr galdurinn.

-Í þriðja lagi þætti mér hvort sem er lítt spennandi til lengdar að vera með manni sem fellur fyrir mér vegna galdurs en ekki vegna þess sem ég er. Hef heldur ekki trú á að slíkt endist. Þá væri nú bara bæði einfaldara og heiðarlegra að fara í stutt pils og blaka augnhárunum.

-Í fjórða lagi hef ég aldrei heyrt þess getið að viðfang giftingaróra minna kunni á borvél eða viti hvað öxulhosa er. Þar með er ólíklegt að megi hafa af honum nokkur not önnur en almenn skemmtilegheit. Að vísu smeið spúsa mín mér hin fegurstu húsgögn eftir leiðbeiningum frá IKEA og hefur beitt höggborvél af mikilli íþrótt síðustu vikurnar en þegar allt kemur til alls er gild ástæða fyrir því að karlmenn eru til.

-Í fimmta lagi kann hann áreiðanlega fleiri orðabókaskilgreiningar á dindilhosu en öxulhosu en þó er óvíst að hann þekkti dindilhosu frá öxulhosu ef hann ætti eingöngu að beita skynfærunum sínum. Ég get, sem dindilhosa, kyngt því að mér sé dömpað fyrir við illgjörn flögð og brókarlausar gærur en ég held að það yrði mér ofviða ef minn heittelskaði yrði leiður á mér og fengi sér öxulhosu í staðinn, eða spindilkúlu, ekki yrði það nú skárra.

Samkvæmt ofangreindu eru minnst 4 ár þar til ég verð nógu örvæntingarfull til að heilla doktosnefnuna með galdri. Hins vegar ætti ég kannski að fara að huga að því að kaupa mér stutt pils. Hef ekki farið úr vinnugallanum í allt sumar. Auk þess er ég, sökum óhollra lifnaðarhátta í sumar, að komast í það ástand að geta fengið aðalhlutverk í kvikmynd um alnæmissjúkling með krabbamein á lokastigi.

Líklega ætti ég að láta fávitafæluna duga í bili og einbeita mér frekar að velmegunargöldrum Mammóni til dýrðar. Það þarf allavega nokkuð margar öxulhosur til þess að péningar morkni í banka.

Best er að deila með því að afrita slóðina