Ostagerðargaldur

Búðin okkar er að verða svoooo fín enda þótt við höfum ekki komið nærri eins miklu í verk um helgina og við ætluðum.

Ég sé m.a.s. fram á að frábæra lendingu í deilunni um nautshúðina hans Darra. Húðin er einn af dýrgripunum sem hann hefur borið heim úr sveitinni. Af öðrum má nefna blóðug hrútshorn og ósútaða gæru sem lá í salti í baðkarinu lengi vetrar þar til ég henti henni af gerræði mínu. Hvað um það, nautshúðin þekur heilan vegg í herberginu hans og þar sem hann vildi alls ekki setja neitt upp við hana var hann með húsgögnin sín úti á miðju gólfi. Herbergið var eins og geymsla og ég sagði honum að þegar ég yrði búin að mála herbergið yrði fjandans húðin að fara. Þótt sé enganveginn hentugt að hafa húðina í unglingaherbergi á hún prýðilega við í holunni okkar og Darri virðist vera fullkomlega sáttur við að hún verði þar, aðalmálið að hún fái að njóta sín einhversstaðar.

Við sjáum semsagt fram á að þetta verði fínasta búð sinnar tegundar í Reykjavík. Reyndar sú eina svo það er kannski ekki eins merkilegt og ætla mætti. Heimili mitt er aftur á móti að verða eitt sinnar tegunar fyrir það hve langt það er frá því að vera fínt. Mig vantar þegar nokkrar klukkustundir í sólarhringinn til að ná því að vinna, útrétta og koma fyrirtækinu á koppinn. Enginn tími eftir til að snurfusa í kringum sig heima. Koma tímar, koma hreindýr og fyrr eða síðar lýk ég við að mála hérna, sennilega síðar. Mammon verður vingjarnlegri við mig með hverju árinu en ég verð endilega að læra að galdra meiri tíma.

Best er að deila með því að afrita slóðina