Hlustaðu

Æ, elskan.

Þú myndir segja honum það allt. Hvernig þér líður og hvað þú hugsar. Frá fiðrildum og silfurskottum og ostinum og öllu því.

Þú myndir segja honum það allt en þú reiknar ekki með að hann hafi áhuga á því.

Ég vildi geta sagt þér að hætta þessari vitleysu eða að þetta sé nú ekki alveg svona, hann hafi sjálfsagt verið undir miklu álagi undanfarið eða að þótt hann eigi kannski erfitt með að tjá áhuga sinn á því sem bærist innra með þér, sé hann áreiðanlega til staðar. Ég vildi geta sagt það með sannfæringu en það fer mér ekki vel að ljúga.

Sannleikurinn er nefnilega sá að flestir karlmenn hafa sáralítinn áhuga á hugarheimi þeirra kvenna sem þeir sofa hjá. Þú sérð þetta best í bælinu. Feikaðu fullnægingu og gaurinn verður alsæll, jafnvel þótt þú sért ekki einu sinni að vanda þig. Segðu honum að þú sért fullkomlega sátt þótt þú hafir ekki séð flugelda og hann mun pína þig í 40 mínútna eftirleik. Hann hefur ekki áhuga á upplifun þinni heldur einhverri ímynd.

Þeir eru til sem munu sýna þér raunverulegan áhuga. Í alvöru þeir eru til, ég hef hitt þá. Þeir eru kvæntir, fatlaðir, eldri en sjötugir eða yngri en 18, stundum þetta allt.

Ég hef varið grilljón og sjö klukkustundum í að velta fyrir mér hvað það er sem karlmenn vilja. Ég hef komist að niðurstöðu: Þeir vilja það sama og við, að einhver sýni þeim áhuga. Hinn dæmigerði einhleypingur virðist hinsvegar álíta að áhuginn sem þú sýnir honum sé óræk sönnun þess að hann sé raunverulega áhugaverðasta mannvera á jarðríki og að það áhugaverðasta við þig sé það sem þú hefur um hann að segja. Hlustaðu á karlmann tala og þú sérð áhugasvið hans í hnotskurn; hann.

Jú vinan, þeir eru til sem munu sýna þér áhuga upp fyrir klof. Vonandi hittir þú einhvern þeirra. Hvað félaga þinn varðar: Nope, let´s face it, he’s just not that into you.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina