Er að bíða eftir henni

Í gær uppgötvaði ég ákveðna fordóma hjá sjálfri mér. Ég á kunningja, sætan strák sem ég vissi ekki betur en að væri algjör drusla. Auk þess er hann alki svo það er engin hætta á að ég verði ástfangin af honum. Hann var þessvegna um hríð ofarlega á lista yfir þá fjölmörgu karlmenn sem ég hafði í hyggju að forfæra en fyrst dróst það sökum anna og svo komst ég að því að hann var ekki nærri jafn vitlaus og hann leit út fyrir að vera. Það varð til þess að ég lagði plön mín um að táldraga hann til hliðar, ég hef það nefnilega fyrir reglu að sofa aldrei hjá neinum sem hefur ekki fallið á greindarprófi. Nema náttúrulega að ég ætli að giftast honum, þá má hann slaga upp í meðalgreind en samt ekki vera klárari en ég. (Enda sjaldan nokkur hætta á því og er ég þó mun vitlausari en ég lít út fyrir að vera) Undantekningin er doktorsnefnan sem hefur aldrei viljað mig, hann er miklu klárari en ég en ég myndi samt alveg giftast honum. Af því ég veit að hann verður góður við konuna sína.

Jæja. Svo gerðist það í gær að ég varð skyndilega einmana og langaði í samneyti við veru af hinu hærðara kyni. Haffi var auðvitað nærtækasti kosturinn; það fallegasta sem ég hef kysst, svo víðáttuvitlaus að það hvín í hausnum á honum og alltaf fullur, líka þegar hann er þunnur. En þar sem líkami minn er gáfaðri en ég og hefur tekið þá stefnu að hafna honum umsvifalaust, gengur það víst ekki. Ég týndi símanum mínum fyrir nokkrum vikum og þar með símanúmerunum hjá flestum bjánum sem ég þekki svo ég ákvað að slá af kröfunum og gefa því séns að gáfumenni gæti vel komið til greina sem einnota félagi. Ekki fastur bólfélagi að sjálfsögðu en eitt skipti hlyti að sleppa. Því miður reyndist símaskráin mín aðeins ná yfir eitt einhleypt gáfnaljós svo ég sendi druslustráknum sms sem ég er viss um að margur fávitinn hefði selt sál sína fyrir.

En hvað haldiði; hann reyndist ekki meiri drusla en svo að hann afþakkaði. Sagðist vera að bíða eftir hinni einu sönnu! Annað hvort er maðurinn óvenju bíræfinn lygari eða þá að hann er í alvöru engin drusla, eiginlega algjör engill. (Nema hann hafi brostið kjark til að viðurkenna að hann væri þegar tvíbókaður þá nóttina, sem er reyndar líklegast) Auk þess er hann á þessum dásamlega aldri þegar menn eru ennþá frekar hlýðnir en samt ekki svo óreyndir að maður þurfi að halda fyrirlestur og setja þeim fyrir heimaverkefni áður en hægt að búast við árangri. Karlmenn eru svosem alltaf karlmenn með þeirri fötlun sem því óhjákvæmilega fylgir og ég býst við að með kvenlegum klækjum tækist mér fyrr eða síðar að leggja hann, en að fara að kúra hjá einhverjum sem er hvorki bjáni né lauslátur, það gengur náttúrulega ekki. Gæti hreinlega orðið bálskotin í honum og þar sem hann er barnlaus alkóhólisti nenni ég því ómögulega. Hvað um það, ég hef allavaega öðlast nýja trú á karlkynið, næstum farin að trúa því að til séu einhleypir karlar sem nálgast það að hafa snefil af sjálfsvirðingu. Guð er þá til eftir allt saman. Eða ekki. Ég er allavega ekki svo langt leidd í trúnni á hann að það hvarfli að mér að bíða eftir hinum eina sanna. Það hlýtur einhversstaðar að vera fallegur fábjáni á lausu.

Best er að deila með því að afrita slóðina