Drengurinn sem vaknaði með ljótuna

-Það er vitleysa í þér að ég sé alltaf glaður, sagði Endorfínstrákurinn hamingjusamur. Í gær t.d. vaknaði ég með ljótuna. Ég var með ljótuna alveg lengi. Í marga klukkutíma. Allavega þrjá, kannski næstum fjóra.

Samt var eitthvað í röddinni sem sagði mér að kannski væri ljótan ekki alveg liðin hjá. Ég þagði en hann sagði ekkert meira.
-Ég verð heima í kvöld ef þig langar í félagsskap, sagði ég að lokum.

-Kemur Ljúflingur hingað líka? spurði hann þegar hann kom.

-Ekki nema tíkin hans verði á lóðaríi.
-Greini ég afbrýðisemi?
-Væri hún eitthvað minni tík ef ég væri ekki afbrýðisöm?
-Værirðu minna afbrýðisöm ef hún væri ekki tík?
-Ég er ekkert afbrýðisöm. Ég er bara með ljótuna, sagði ég.
-Þú ert ekkert í afneitun er það?
-Nei, sagði ég og leit hvasst á hann. Ég er ekki í neinni afneitun. En þú? Ert þú nokkuð í afneitun?

Þá hrundi helvítis hamingjugríman eitt andartak.
-Afneitun er góð, sagði hann. Annars væru allir alltaf með ljótuna. En það er þessi spurning um það hvað maður raunverulega vill. Það er bara frekar erfitt að setja sér metnaðarfull markmið þegar maður er ópraktísk blanda af snillingi og bjána og líður í rauninni vel með að vera motta. Það er einhvernveginn eitthvað ekki mjög sætt.

Best er að deila með því að afrita slóðina