Blót

Það er ekki líkt mér að sofa til hálftólf á sunnudegi en allt hefur sínar skýringar; vér kviðmágkonur blótuðum Þorra í gærkvöld. Rauði Folinn kom vitanlega með enda hefð fyrir því allt frá barnaskólaárum að bjóða honum einum karlmanna í stelpnapatrý.

Fór með Pysjunni á klassíska gítartónleika í gær og komst því ekki til undirbúningsdrykkju en konan mín fyrrverandi var orðin rúmlega kát þegar hún mætti á svæðið.
-Það eru dulartengsl á milli okkar Eva. Við erum einu konurnar hér í rauðum kjólum.
Reyndar var ein í viðbót en það var dannaður síðkjóll með einhverri slæðudruslu sem huldi það litla af skrokknum á henni sem kjóllinn náði ekki yfir og auk þess var hann í dempuðum rauðum tón og konan dökkhærð.
-Við erum allavega þær einu sem standa undir þeim stimpli að vera týpíkal ljóskur, sagði Spúnkhildur og dró kjólinn niður fyrir dónalega sídd af því að hún er þrátt fyrir dræsulúkkið einkar penn kvenmaður og ekki beinlínis á sneplunum þótt hún væri orðin huggulega einlæg.

Það er út af fyrir sig skemmtilegt að líta út eins og brókarlaus gæra en satt að segja var það ekki sérstök áskorun. Meðalaldur kvenna var 57 ár og klæðnaður þeirra að meðaltali svartur með nakinni krumpubringu og viskustykkjahandleggjum. Það dregur líka töluvert úr egókikkinu sem slefandi augu vekja þegar meðalaldur áglápenda er um sextugt og sá eini á svæðinu sem kemur til greina bæði harðgiftur og búinn að glápa nægju sína á okkur naktar fyrir mörgum árum þegar við vorum ennþá yngri og fallegri en í dag.

Þorramatur er alltaf þorramatur, þrátt fyrir ósæta kartöflurottu úr pakka og veislustjórar bara þó nokkuð skemmtilegir svona framan af.
-Nú langar mig að yrkja hringhenda klámvísu, sagði Æskuunnusta fyrrum elskhuga míns (þeim er á dramatísku augnabliki reyndist ekki eiga tíkall) og þar sem ég á ekki betri orð til að lýsa stemmingunni ættleiði ég þau hér með.

Skemmtun sem spannar lengri tíma en athygli þeirra sem verið er að skemmta, hættir að lokum að vera skemmtileg og þegar við vorum búin að sitja undir tveggja tíma hagyrðingaprógrammi þar sem yrkisefnið var gjarnan kaupfélagsstjórar sem voru jarðsungnir nokkrum árum fyrir innrás mína í veröldina, sagði Maðurinn sem átti ekki tíkall að það væri að rifjast rækilega upp fyrir sér hvers vegna hann hefði ekki sótt þorrablót svo árum skipti. Fólkið vildi yfirgefa staðinn þótt klukkan væri ekki nema ellefu og ballið rétt að byrja. Ég var að vanda farin að geispa.

-Ég veit ekki alveg hvað ég vil. Ég gæti orðið hér eftir og dansað við pabba minn, ég gæti dansað við pabba minn og farið heim að sofa eða ég get dansað við pabba minn, orðið mér úti um kaffi eða amfetamín eða einhvern fjandann til að halda mér vakandi og komið með ykkur, sagði ég.
-Það er alltaf gott að eiga marga og ólíka valkosti, sagði Folinn, virtist hallur undir þann síðasta og konan mín fyrrverandi tók ekki í mál að ég færi heim að sofa. Ég gúllaði í mig ótæpilegu magni af kaffi, staðráðin í að halda út allavega fram að miðnætti.

Ég dansaði við föður minn og þótt það væri í sjálfu sér ágætt verð ég að viðurkenna að mér fannst heldur skemmtilegra heima hjá Manninum sem átti ekki tíkall og konu hans. Konan mín fyrrverandi búin að drekka slatta til viðbóta og játar okkur öllum ofursérstæða ást sína en er ekki baun leiðinleg og ég sting upp á að hún losi sig við viðhengið og fari í kynskiptaaðgerð. Guð minn góður hvað ég elska þess konu heitt.

Svo hringir síminn minn. Það er Ljúflingur sem elskar mig og þótt ég sé alls ekki mjög drukkin, allavega ekki nógu drukkin til að nota það mér til afsökunar, hellist yfir mig óbærilegur léttleiki tilverunnar.
-Ég ætla að sofa hjá honum, tilkynni ég, rétt eins og þeim komi það við. Kannski er ég að vona að þau hafi vit fyrir mér, segi mér að hætta þessari vitleysu. Yeah rigth, glætan að einhver úr þessum hópi taki það að sér.
-En gaman. Er hann sætur? spyr Eiginkona mannsins sem átti ekki tíkall.
-Hann hefur gnægð persónutöfra en er bæði yngri en ég og svona álíka kynþokkafullur og maðurinn þinn, svara ég.
Hey, þú svafst nú hjá mér, segir Rauði Folinn og setur upp skítaglott, þið hafið reyndar allar sofið hjá mér.

Og veit að hann er sætur.

Já og myndum vafalaust gera það aftur en það er sko minnst fyrir líkamlegt atgervi þitt heldur frekar af því að við elskum þig svo óskaplega mikið, hugsa ég en segi það ekki því hann veit það svosem.

-Ég ætla að sofa hjá honum, það er algjört rugl og þið ættuð að segja mér að hætta við það, segi ég.
-Það er ekki rugl. Það er góð hugmynd. Hann elskar þig út af lífinu og konan hans er hex dauðans og heldur fram hjá honum út um allar trissur, segir Spúnkhildur sem sjálf myndi hvorki sofa hjá fráteknum manni né halda fram hjá og allra síst fyrirgefa sínum eigin manni ef hann sængaði hjá annarri.
-Maður sefur ekki hjá fráteknum mönnum segi ég en finn að ég hljóma ekki sérlega sannfærandi.
-Muntu sjá eftir því á morgun? spyr Rauði Folinn.
-Hvort það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá … segi ég og framhaldið höfum við afgreitt svo oft áður að það er óþarfi að ræða það frekar.

Konan mín fyrrverandi og æskuvinkona Folans á leið út á lífið með núverandi konu fyrrum mágs síns, og fyrrum elskuga míns, konu sem hefur kysst fyrrum unnustu hans og æskuvinkonu Spúnkhildar á sviði og ég að bíða eftir manni sem elskar mig heitar en nokkur þeirra kærasta og sambýlismanna sem ég hef átt, af sömu ástæðu og ég elska þau öll; bara eitthvað óskiljanlegt sem gengur upp og breytir lélegustu sápuóperu í andavinafélag.

-Skemmtu þér vel á fermingarstráknum, segir Rauði Folinn sem sjálfur barnaði systur fyrrverandi konunnnar minnar á meðan hún var ennþá í grunnskóla og getur þessvegna leyft sér að vera fyndinn.

Stutt faðmlag að skilnaði og hafi ég einhverntíma efast um að sé gróið um heilt á milli okkar, er sá efi endanlega horfin. Svo gott að geta elskað hann af öllu hjarta, án nokkurs sársauka, án nokkurrar eftirsjár, horfa á hann með konunni sinni og finna að eitthvað er nákvæmlega eins og það á að vera.

-Á ég að keyra þig til þessa rúðustrikaða ástmanns þíns? spyr bílstjórinn sem ég hef þegar ákveðið að draga á tálar.
-Nei, hann er líklega á vakt, eða í bælinu hjá einhverri annarri. Keyrðu mig bara heim og hafðu vit fyrir mér ef ég bið þig að sofa hjá mér, segi ég.

Þá lítur hann beint í augun á mér og segir:
-Heldurðu í alvöru að þú myndir sjá eftir því á morgun?

Best er að deila með því að afrita slóðina