Musterisrolla

Í dag átti ég erindi í musteri Mammóns á Suðurlandsbrautinni. Ég fékk nefnilega sent gult blað um daginn. Mér skilst að það sé einhverskonar bænaskjal um að láta musterið njóta góðs af veraldlegum auðæfum mínum. Allavega snerist þetta eitthvað um ónóga innistæðu. Sem merkir væntanlega að ef ég borga ekki tíund af fimmþúsundkallabúntunum sem ég geymi undir koddanum til musterisins, verður Mammón fúll og ég neyðist til að afplána einhverja sataníska himnaríkisvist og hafa vængjaþytinn og hörpuglamrið í fiðruðum tónskólanemendum í eyrunum allan daginn í stað þess að sitja í huggulegheitum við arineld og telja fimmþúsundkalla.

Jæja hvað um það. Ég lagði leið mína í musterið og hitti ungan og fagran fjárhirði sem ég hef ekki augum barið fyrr. Enda þótt ég afhenti honum ofgnótt fimmþúsundkallabúnta gat ég ekki séð nein merki þess ég hefði snert gleðistreng í brjósti hans. Líklega fær hann ekki prósentur af þeim fimmþúsundköllum sem hann handfjatlar. Ekki varð ég heldur vör við neitt frygðarandvarp af vörum hans þegar ég hneppti frá mér kápunni og er ég þó búin að ná kjörþyngd aftur eftir að ég horaðist úr hófi, þannig að nú sést að ég tilheyri hinu fegurra kyni.

Ég sá í hendi mér að ekki yrði unað við þetta áhugaleysi mannsins svo ég ákvað að nýta sambönd mín innan musterisreglunnar til að ná athygli hans. En svo bregðast krosstré sem önnur tré; haldiði að Spúnkhildur sé ekki löggst í flensu!

Það er sem ég segi; sumir dagar totta fisk og til að toppa drama dagsins er Rósa frænka komin í heimsókn.

Best er að deila með því að afrita slóðina