Toddý

Synd og skömm. Þegar ég kom út á vídeóleigu í gær var mér tjáð að menningarþættirnir fútbollers vævs væru ekki til á myndböndum eða diskum. Er’ða nú hallæri!

Fyrst ég var þangað komin tók ég nú samt tvær myndir sem lengi hefur farist fyrir að sjá þótt það hafi svosem alltaf staðið til. Sá listi er reyndar ærið langur. Tók Agnes of God og Fucking AAmaal.

Ef ég hefði ekki verið lasin hefði þetta orðið frábær dagur. Gerði ekkert af viti, vann ekki handtak, keypti tilbúinn kvöldmat og hitaði mér m.a.s. rauðvínstoddý. Toddý var drukkið á briddskvöldum heima hjá afa mínum og ömmu þegar ég var lítil (ýmist rauðvíns eða rommtoddý) en síðustu 20 árin eða svo hafa Íslendingar og aðrir samnorrænir trúvillingar, lagt sig fram um að eyðileggja þennan skemmtilega drykk fyrir mér með því að setja út í hann ávexti og hnetur, kalla hann glögg og tengja hann sértaklega einhverju desemberfyllirí með piparkökum. Ég fullyrði að toddý virkar miklu betur uppi í sófa með parkódíni og góðri kvikmynd en með piparkökum og drukknu reykingafólki.

Þegar við erum orðin gömul ætlar Spúnkhildur að kenna mér bridds. Þá verður spilað á laugardagskvöldum. Þá verður boðið upp á toddý. Eða heitt súkkulaði með þeyttum rjóma. Og allir sem ég þekki verða hættir að reykja og enginn verður veikur eða blankur eða einmana. Himnaríki er alltaf í nokkurra áratuga fjarlægð. Ýmist fram eða aftur í tíma.

Best er að deila með því að afrita slóðina