Galdraeldhús

Ég á galdraeldhús. Það fyllist af mat jafnóðum og það tæmist, án þess að ég þurfi að gera stórinnkaup. Fyrir jólin fengum við t.d. sent alvöru kjöt og annan sveitamat til marga vikna norðan úr Skagafirði. Pabbi þreif eldhúsið sitt í Hafnarfirði og komst að þeirri niðurstöðu að þar sem hann fær heitan mat í vinnunni og hefur um nokkurra ára skeið snætt heima hjá sér með konu sinni í fríum, væru litlar líkur á að hann myndi elda margra ára pasta og grjónabirgðir sem hann hefur geymt í bækistöð sinni í Firðinum. (Og jafnvel keypt meira án þess að nokkur skilji hversvegna) Kom færandi hendi og bað mig endilega að reyna að nýta heilan lager af makkarónum, aprikósusúpu, fiskbúðingi og öðrum skrýtnum mat sem maður veit að einhver hlýtur að borða en myndi aldrei kaupa sjálfur. Það er semsagt pabbi minn sem kaupir hann. Jafnvel þótt hann sé búinn að kynnast venjulegum mat.

Ég henti reyndar ritzkexinu sem rann út 1998, jólasmákökunum frá 2002 og hjartarsaltinu sem var svo gamalt að það var með miða frá búð sem við versluðum við þegar ég var unglingur og var áreiðanlega farin á hausinn árið eftir að Haukur fæddist.

Makkarónurnar nota ég hinsvegar, enda eru þær ekkert annað en pasta, þótt maginn í mér snúist við þegar ég sé þær. Á minningar um viðbjóðsfæðu sem faðir minn var hrifinn af þegar ég var krakki. Makkarónur soðnar í mjólk þar til þær voru orðnar slepjulegar. Þetta kallaði hann makkarónugraut og át með góðri lyst. Ég hataði þennan rétt og kanilsykurinn gerði hann ekki einu sinni ætilegan. En eins og ég segi makkarónur eru ekkert annað en pasta svo ég borða þær bara með lokuð augu og krakkarnir eru hæstánægðir með þær. Fyrir vikið hef ég sáralítinn mat þurft að kaupa undanfarið og hef sett matarpeninginn í leikhússferðir. Það er mun skemmtilegra að eyða peningum í leikhúsinu en Bónus.

Best er að deila með því að afrita slóðina