Long time no see

Besti matsölustaður í bænum er terian í IKEA. Allavega er besta verðið þar. Og besta Spúnkhildur í heimi borðar stundum þar með mér í hádeginu. Svo er líka hægt að kaupa útsöluglös á leiðinni út.

Við kassann leggur einhver hönd á öxl og ég lít upp. Svo vön því að líta rosalega hátt upp að í fyrstu sé ég bara loft. Kannski það sé draugur hugsa ég en það er ekki draugur, bara einhver sem er svo lítill að ég get kysst hann á kinnina án þess að nota stiga.

-Haffi!
Risastórt bros með skarði milli framtanna og ég finn adrenalínið spýtast út í blóðið.
-Hvar hefur þú verið? Veistu að ég leitaði að þér allstaðar. Ég fékk bróður minn til að leita að þér. Hélt að þú hefðir dáið eða lent í meðferð eða hjónabandi.
-Af hverju hringdirðu ekki?
-Lenti í ástinni og eyddi númerinu úr gemsanum, mundi það svo ekki lengur þegar mannhelvítið dömpaði mér.
-Rosalega er langt síðan við höfum hist. Hvenær töluðum við eiginlega saman síðast?
-Ætli það hafi ekki verið kvöldið sem þú bauðst mér í trekant með þér og Brjóstfríði haustið 2003.
-Umlmm. Ég man eftir því. Ég var blindfullur, tautaði hann skömmustulega.

Hann lenti, því miður líklega, hvorki í meðferð né hjónabandi. Keypti sér bara vörubíl og íbúð, sem vill svo til að er staðsett í sömu blokk, sama stigagangi og á sömu hæð og fyrsta íbúðin sem ég eignaðist. Aldrei hefði mér dottið í hug að leita þar.

-Ertu á hraðferð? sagði ég.
-Nei ekki svo, en þú?
-Ég ætlaði að þrífa bílinn en það getur beðið, hef ekki þrifið hann síðan síðasta vor hvort sem er.
-Sama hér, mætti halda að Osama bin Laden gengi um bílinn minn en ekki ég sjálfur.
Líklega er það að vanrækja bílana okkar það eina sem við eigum sameiginlegt fyrir utan það að þykja kjötsúpa góð.

Við fengum okkur kaffi og töluðum saman en hann leit aldrei í augun á mér. Hann var líka edrú greyið. Ég hef séð hann edrú tvisar sinnum áður og það var eins. Við höfðum svosem ekki um margt að tala frekar en áður. Ég sagði honum að ég ætlaði á tónleika með Pysjunni minni í kvöld, sönglög Sigvalda Kaldalóns, og hann horfði á mig eins og hann hefði aldrei heyrt þennan Sigvalda nefndan.

Hann kyssti mig þegar við fórum, og gaf mér símanúmerið sitt.
-Hringdu svo einhverntíma í mig, sagði hann.
Ég ætlaði að spyrja hvort hann kynni ekki á síma en hætti við. Ég gisti ekki hjá honum nema einu sinni þótt hann þrábæði mig um það margsinnis. Það var mín leið til að halda stjórn á aðstæðum. Hann hringdi ekki í mig nema dauðadrukkinn, það hefur líklega verið hans aðferð.

Ég hef svo oft velt því fyrir mér síðustu mánuði hversvegna ég sakna hans stundum því það er ekkert rökrétt við það. Við eigum ekkert sameiginlegt, ekki frekar en ég og Rikki. Og ef út í það er farið er Maðurinn sem vildi ekki eiga brauðrist með konunni sinni þó allavega með stúdentspróf, hefur heyrt menn á borð við Sigmund Freud og Leonardo Da Vinci nefnda, drekkur í hófi og sér til þess að aðrar konur haldi sig utan svefnherbergisins á meðan ég er þar inni.

Samt gleður það mig svo mikið að sjá Haffa. Bara að sjá hann svona rétt í svip. Mér fannst alltaf eitthvað svo gott að vera með honum. Samt var ég alveg jafn tíkarleg við hann og við Manninn sem vildi ekki eiga brauðrist með konunni sinni.
-Maður talar ekki svona við fólk sem manni þykir vænt um, sagði hann einu sinni.
-Ævintýralegt að þér skuli detta í hug að mér þyki vænt um þig, hef ég kannski einhverntíma gefið þér ástæðu til að halda það? svaraði ég að bragði.
-Þú ert nú meiri broddgölturinn. Þú heldur þó ekki að ég taki því persónulega þótt þú þú rekir broddana óvart utan í mig.
-Ég geri það viljandi!
-Ég drekk líka viljandi þótt ég viti að þú þolir það ekki. Það merkir samt ekki að mér þyki ekki vænt um þig, sagði hann.
Svo opnaði hann fimmta bjór dagsins og ég fór heim löngu fyrir hádegi og skrifaði ljóð sem hann hefði sökum almenns greindarskorts, áreiðanlega skilið sem ástarljóð ef hann hefði lesið það.

Þegar ég rifjaði þetta atvik upp, einhversstaðar á milli IKEA og Ljóta andarungans í dag, áttaði ég mig skyndilega á dálitlu sem ég hef aldrei áður gert mér almennilega grein fyrir; mér líður vel nálægt fólki sem heldur því statt og stöðugt fram, andstætt allri rökhyggju, að því þyki vænt um mig. Sama hversu heimskt, drykkfellt, ábyrgðarlaust, lygið og geðbilað það er. Mikið djöfull er ég nú aumkunarverð. Ég eyddi símanúmerinu hans úr gemsanum þegar ég kom heim.

[custom-related-posts title=“Tengt efni“ order_by=“title“ order=“ASC“ none_text=“None found“]

Best er að deila með því að afrita slóðina