Útsala

Ég fór á útsölur í dag. Tók systur mína Anorexíu með þar sem hún stóð á því fastar en fótunum að hún þekkti allar tískubúðir höfuðborgarsvæðisins og aftók með öllu að það væri nokkuð hæft í því að fatnaður í mínu númeri og með sniðum sem henta mér sé einfaldlega ekki til.

Er búin að máta grilljón buxur. Þær sem eru ekki of stórar eru þannig sniðnar að þær eru níðþröngar þvert yfir lendarnar og fletja þannig rassinn niður og þrýsta því litla holdi sem ég hef utan á mér niður á lærapokasvæðið, flaka svo frá mér að aftan þannig að bakstykkið myndar trekt niður í rassskoruna. Buxur sem gera ráð fyrir mitti eru hinsvegar allar of stórar.

Brjóstahaldarar í mínu númeri eru einfaldlega ekki til. Ég fann reyndar einn sem er hvorki gervibrjóst dulbúin sem brjóstahaldari né þannig hannaður að brjóstin skrölti laus inni í stoppuðum skálum sem líkjast brjóstum nákvæmlega ekkert að lögun. Sá var hinsvegar þannig lagaður að hann flatti brjóstin á mér neðan frá og ýtti þeim upp undir viðbein. Mér skilst að það sé fallegt en ég hef bara aldrei séð neitt annað en afkáralegt við konur sem eru með geirvörturnar í axlahæð.

ALLIR toppar gera ráð fyrir brjóstum í stærð C eða D. Nema einn sem var m.a.s. flottur.

-Þessi er fínn, sagði ég en systir mín hristi höfuðið
-Alltof mellulegur, sagði hún
-Það er allt í lagi, ég er flottust þegar ég lít út eins og brókarlaus gæra, sagði ég.
-Ókei, ef þú ætlar endalaust að halda áfram að hösla einhverja aumingja þá skaltu endilega kaupa þér hórugalla en ef þú ætlar að ná þér í almennilegan mann þá verðurðu að vera smekkleg.

Ég fór í huganum yfir hennar eigin silkihúfusafn og velti fyrir mér skilgreiningunni á aumingja. Prísaði mig sæla fyrir að vera ekki eins smekkleg og hún, mínir menn kunna þó allavega kennitöluna sína.

Eftir árangurslausa leit í 4 klukkutíma var ég úrvinda af þreytu, vansæl og úrkula vonar um að finna nokkurntíma nokkuð sem passar á mig. Systir mín var hinsvegar í sæluvímu, líkt og hún væri að koma úr Óperunni (þ.e.a.s. líkt og manneskja með eðlileg áhugamál væri að koma úr Óperunni.) Samt keypti hún ekkert og mátaði ekkert nema einn kjól. Fannst bara svona geðveikt gaman að reyna að finna spjarir á mig. Vissi ekki hvert hún ætlaði þegar ég lýsti því yfir að þetta væri greinilega vonlaust, sagðist sjálf aldrei taka minna en viku í að leita sér að frambærilegum fatnaði.

Ég kom heim með topp sem ég fann í Kolaportinu á 490 kr. Það sést að ég er með brjóst þegar ég er í honum. Ekki stór að vísu en silikonfylltur brjóstahaldari er alveg óþarfur. Bara lítil og falleg brjóst -sem sjást. Örugglega mjög hórulegt auk þess sem mér skilst á systur minni að sniðið sé ekki lengur í tísku. Það ku víst vera höfuðsynd að ganga í fatnaði sem er ekki lengur í tísku.

Buxur fékk ég ekki. Systir mín segir reyndar að það sé nú svosem matsatriði hvenær buxur séu of stórar. Minn mælikvarði dugar held ég ágætlega; ef þær eru nógu rúmgóðar til að ég geti fróað mér undir stýri, þá eru þær of stórar. Það er bara ekki hættandi á slíkt háttalag í umferðinni.

Um næstu helgi ætla ég að veiða einhvern vesaling á 490 kr bolinn. Og þvinga hann til að læra kennitöluna sína utan að. Annars neyðist ég til að fara til útlanda til að kaupa mér minni buxur.

Best er að deila með því að afrita slóðina