Tímaflakkarinn

Afjólun híbýla minna gengur frekar treglega. Þ.e.a.s. ég er ekkert byrjuð að taka niður ennþá. Ætlaði að gera það í gær en það er eins og vant er; það slítur gjörsamlega í sundur fyrir manni daginn að þurfa að mæta í vinnu.

Aðdáendahópur minn stækkar jafnt og þétt og telur nú ekki færri en 8 manns, allt fólk á níræðisaldri. Afskaplega víðlesið fólk með góðan smekk og umsagnirnar hverri annarri lofsamlegri en ég er farin að hallast að því að ég sé kannski á eftir minni samtíð.

Það þykir af einhverjum dularfullum ástæðum miklu kúlla að vera á undan sinni samtíð en á eftir. Næst gef ég út gagnvirku ljóðin mín á tölvutæku formi. Hef ekki nokkra trú á að þau muni seljast en þá geta bókmenntafræðingar framtíðarinnar allavega sagt að ég hafi verið á undan minni samtíð. Og þá verð ég þjóðskáld. Enda miklu kúlla að vera dautt þjóðskáld en lifandi alþýðuskáld.

Ég er að hugsa um að lofa jólaskrautinu bara að hanga áfram. Það verður kannski álitið merki um slóðaskap fyrstu mánuðina en það kemur hvort sem er enginn í heimsókn. (Reyndar hefur fólk verið að afsaka sig með því að ég sé aldrei heima en það er haugalygi, ég er alltaf komin á fætur um 6 leytið og fer ekki út fyrr en uppúr kl 8.) Svo ætla ég að bjóða öllum sem ég þekki í kaffi í september og þegar fólk sér jólaskrautið mun það álykta að ég sé á undan minni samtíð.

Ef þetta plan er eitthvað annað en gargandi schnilld þá er ég hér með hætt við að verða markaðsfræðingur og sný mér alfarið að skáldskapnum.

Best er að deila með því að afrita slóðina