Örstuttur fyrirlestur um hamingjuna

Ég hef aldrei séð hann öðruvísi en hamingjusaman.

-Hefurðu einhverja sérstaka ástæðu til að vera hamingjusamur eða er þetta bara kækur? spurði ég

-Ætli ég sé ekki bara nógu klár til að hafa vit á því að vera hæfilega hamingjusamur og nógu vitlaus til að hafa ekki áhyggjur af því hvort ég sé hæfilega hamingjusamur.
-Greind er stórlega ofmetið fyrirbæri. Heimskingjar eru allavega almennt mun hamingjusamari en annað fólk, sagði ég.
-Og finnst þér kannski tímabært að fara að velta því fyrir þér hversvegna heimskingjum gengur betur að vera hamingjusamir? svaraði drengurinn sem í undarlegu samkrulli sínu af heimskulegustu heimsku og tærri snilld, tekst alltaf að fylla æðar mínar af endorfíni.
-Það er vegna þess að þeir eru of þröngsýnir til að sjá upp á efri hæðir þarfapýramídans, sagði ég.
-Nei nei, sagði hann rólega. Við heimskingjar höfum bara vit á því að vera ekki stöðugt að horfa svo hátt upp.

Og færði mér heim enn eina sönnun þess að viska á harla lítið skylt við gáfnafar.

Best er að deila með því að afrita slóðina