Vessar

Líklega finnst flestu fólki eitthvað erfitt við að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru. Ég skil ekki alveg hvers vegna. Sjálfri hefur mér fundist það mun einfaldara en að vera stöðugt að ljúga að sjálfum sér og öðrum. Þarf kannski smá kjark ef aðstæður manns eru ekki sérlega bleikar en þegar upp er staðið er það auðveldara.

Rikki hringdi í mig í hádeginu í gær. Spurði hvort ég væri búin að „jafna mig“. Hélt því fram að ég hefði verið í „einhverri fýlu“ á sunnudaginn. Sem er fráleitt.

Í alvöru talað, ég held að þetta sé í annað skipti sem hann hringir í mig. Það er alltaf ég sem hef samnband við hann. Og það er allt í lagi, ég er ekkert spæld yfir því. Ég væri það ef ég liti á þetta sem ástarsamband eða bara vináttu en ég geri það ekki. Allt á sínar forsendur og ég tek þeim eins og þær eru. Mér finnst satt að segja ágætt að geta stjórnað þessu algerlega sjálf.

Hvernig getur maður sem aldrei hefur sýnt mér minnsta vott af persónulegum áhuga, (það er ekki persónulegur áhugi þótt hanns spyrji hvað sé að ef ég er óvenju kuldaleg, það eru bara lærð viðbrögð) sem aldrei hefur lesið eina línu af því sem ég skrifa (ef hann veit þá að ég skrifa) sem veit nánast ekkert um mig umfram nafn, aldur og nöfn 3ja fyrirtækja sem ég hef unnið hjá, sem fær nánast engin viðbrögð þegar hann reynir að ræða við mig um bíla, vélsleða, stangarstökk eða hvað það er sem hann hefur áhuga á, sem aldrei hefur komið inn á heimili mitt, sem veit ekki hvort ég borða morgunmat, hvaða síðu ég les fyrst í fréttablaðinu eða hvaða tannkremstegund ég kaupi, sem hefur ekki ennþá sagt mér hvað barnið hans heitir eða hvað hann á marga bræður (ekki svo að skilja að ég hafi spurt) sem hefur í raun engin persónuleg tengsl við mig; hvernig getur hann móðgast þegar ég segi hreint út að við skiptumst á líkamsvessum? Og af hverju er ekki bara í lagi að skiptast á líkamsvessum ef fólk finnur sér ekkert annað skemmtilegra til að gera saman?

Einu sinni spurði hann mig hvað mér þætti gott. Ég svaraði;
-Fullt alveg. T.d. súkkulaði og kjötsúpa og að koma inn úr kulda með frosnar hendur og einhver réttir mér peysu eða teppi og lagar kaffi handa mér. Og að fara í sturtu eftir óþrifavinnu og að vakna við að einhver skríður upp í til mín og snertingin við fíngert flauel og bara allskonar.
-Ég meinti nú í rúminu, sagði hann.
Svarið var semsé „rangt“. Ég átti að svara einhverju um að sjúga og sleikja og aftan frá eða eitthvað í þá veruna.

Seinna spurði hann hvað mér þætti „í alvörunni skemmtilegt“. Ég skildi spurninguna rétt en greip tækifærið til að ergja hann. Sagði að ég hefði t.d. gaman af að skrifa, fara í leikhús og spila skrabbl. Það var líka rangt svar. Hann var nýbúinn að segja mér frá einhverju sem hann sjálfur vildi „innst inni“ og virkar satt að segja algerlega úr karakter. Líklega langaði hann til þess að ég segði að mig langaði „innst inni“ meira að láta binda fyrir augun á mér en að glápa á hann eða að „innst inni“ væri ég ákaflega feimin og blygðunarsöm.

-Innst inni finnst mér gaman að hlekkja fallegan heimskingja niður í rúmið, binda bleika slaufu utan um sprellann á honum og láta mig svo hverfa, sagði ég. Það fannst honum fyndið.

Ég hef aldrei skilið þetta „innst inni“ almennilega. Hvað stoppar fólk í því að langa, vilja og vera það sem það er?

Ég veit ekki hvort það hafði svosem neitt upp á sig að reyna koma honum í skilning um að ég var ekki í neinni fýlu.
-Af hverju segirðu já þegar ég vil fá þig í rúmið með mér? sagði ég.
-Bara, ég meina ég hef alveg gaman af því.
-Og afhverju heldurðu að ég sé að þessu?
-Bara. Þér finnst gott að… þú veist…
-Hvaða fjandans óeðli er það að þurfa að vera nakinn og í greddukasti til að geta kallað hlutina sínum réttu nöfnum. Segðu „ríða“ tepran þín.
-Ókei, þér finnst gott að ríða, sagði hann flissandi yfir eigin vandræðagangi.
-Gott og vel, er einhver önnur ástæða fyrir því að við hittumst?
-Neeei, eiginlega ekki.
-Heldurðu að sé líklegt að við höldum áfram að hittast þegar annað okkar eignast vin eða vinkonu sem getur haldið uppi samræðum um eitthvað annað en kynlíf og pólitík?
-Nei líklega ekki.
-Höfum við einhverntíma sofið í sama rúmi?
-Nei.
-Hvað er það þá sem gerist á milli okkar þegar við hittumst?

Hann hugsaði sig um dálitla stund.
-Ókei, það er rétt. Við skiptumst á líkamsvessum, sagði hann svo í iðrunartón.
-Og er eitthvað rangt við það?
-Nei. Eða mér finnst það allavega allt í lagi.
-Finnst þér það í alvöru? Þú ert nú meiri sorabelgurinn. Og hvað ætlarðu að gera í því? Leita til sálfræðings?
-Ha? Hvað meinarðu?
-Ekkert sagði ég. Þú getur hringt í mig ef þú ert ennþá á lausu á miðvikudaginn.

Svo hringdi ég í Bruggarann og spurði hvort hann vildi leika við mig.
Hann var upptekinn.

Best er að deila með því að afrita slóðina