Áramótaheit

Mér skilst að maður eigi helst að upplifa áramót sem einhverskonar tækifæri, nýtt upphaf á einhverju stórkostlegu. Maður á að gerast rosalega ferskur og taka nokkra daga í það að standa við loforðin sem maður er alltaf að gefa sjálfum sér og helst að finna upp á einhverju nýju til að lofa. Aukaatriði hversu lengi maður stendur við það.

Jújú, það er sjálfsagt ekki verra en hvað annað, allavega lögðum við Sigrún tarot í nótt og spilin mín sögðu það nákvæmlega saman og öll fyrri áramót; ég mun lifa í samfelldu dramakasti, berjast við djöfla, dauða og viðurstyggð eyðingarinnar, fara í silikonaðgerð sem mun án nokkurs vafa misheppnast, verða ástfangin af feitum bankastjóra, halda framhjá honum með aldurhnignum lögfræðingi og verða ólétt eftir prest af austurlenskum uppruna. Í desember mun ég svo deyja í sárri fátækt úr bólusótt eða álíka ógeðspest. Samkvæmt bollanum verða ég hinsvegar rík og hamingjusöm á árinu, eins og allir mínir bollar hafa lofað mér síðustu 5 árin.

Ég strengi heit árið um kring og yfirleitt ekki færri en 30 um áramót en það er alltaf eitt sem skiptir mestu. Síðustu áramót var loforð númer eitt að gera allt sem í mínu valdi stæði til þess að samband mitt við húsasmiðinn yrði fullkomið. Og það gerði ég, með þeim árangri sem við er að búast þegar karlmaður á í hlut. Öll önnur áramótamarkmið mín miðuðust við það að ég yrði ennþá í sambúð þau næstu og þ.a.l. náði ég engu þeirra. Reyndar mistókst nánast allt annað líka. Þegar ég lít til baka man ég ekki einn einasta dag árið 2004 sem var beinlínis góður. Margir voru reyndar stórfínir svona rétt á meðan á þeim stóð en þegar upp er staðið voru þeir byggðir á blekkingu og það er náttúrulega ekki eitthvað sem maður vill endurtaka. Flestir voru almennt frekar bragðdaufir.

Ég bjó í pappakössum 9 mánuði af þessum 12, vann að mestu leyti störf sem mig langaði ekki að vinna, keypti íbúð sem mig langar ekki að búa í, svaf hjá manni sem mig langar ekki að sofa hjá. Giftist ekki þeim sem mig langaði að giftast, skrifaði ekki það sem mig langaði að skrifa og er yfirhöfuð í nákvæmlega sömu sporum og fyrir 5 árum og fyrir 10 árum og fyrir 20 árum, nema hrukkunum hefur fjölgað.

Loforð mitt til sjálfrar mín árið 2005 er þetta;
Ég ætla að gera allt sem mig langar og ekkert sem ég vil ekki.

Ég ætla að byrja á því í kvöld.

Best er að deila með því að afrita slóðina