Um hreinlæti

Sonur minn sóðabrókin hefur komist að þeirri niðurstöðu að í raun og veru sé hann mun meiri snyrtipinni en móðir hans. Kenningu sína byggir hann á tímamælingum. Þar sem ég eyði að meðaltali 12 mínútum í sturtu daglega en hann 36 mínútum, hlýtur hann að vera 200% hreinni. Það er svo aukaatriði hvort þessum 7 * 36 mínútum er skipt niður á 7 daga vikunnar eða bara 4.

Ég hef aldrei hugsað þetta svona áður en sé nú fram á að geta sparað heilmikinn tíma með því að taka dagstund fyrir jól og páska í það að liggja í baði. Ég gæti sem hægast sett borð yfir baðkarið og lesið próförk á meðan eða fengið mér lappa og bloggað á meðan en það er erfitt að sinna slíkum verkefnum undir sturtunni.

Best er að deila með því að afrita slóðina