Jólakort

Í dag barst mér síðbúið jólakort frá Manninum sem vildi ekki eiga brauðrist með konunni sinni, konunni hans og dóttur. Hann er sumsé fluttur heim aftur. Eins og ég átti von á.

Gott að ég hafði vit á að hitta hann ekki oftar. Ég hefði áreiðanlega æst mig upp í tilefnislitla hrifingu á honum og væri eitt sundurtætt flak núna. Líka ágætt að ég svaf ekki hjá honum þrátt fyrir stóryrði konu hans um að henni væri slétt sama. Henni hefði ekkert verið sama.

Helvítis engillinn sem hann gaf mér er ennþá í sellófaninu inni í skáp. Mig langar ekki að eiga hann. Ég spurði Pólínu hvort hún vildi hann en hún gerir ráð fyrir að flýja djöflaeyna í mars, eitthvert út í buskann og það hentar ekki ferðalang að dröslast með brothætta skrautgripi milli landa. Ef einhvern sem les þetta blogg langar að eiga engil sem spilar á þverflautu þá má sá hinn sami sækja hann til mín.

Oh sister when I come to lie in your arms
you must not treat me like a stranger

My ass, ég held ég sé loksins að fatta þetta. Það er nákvæmlega það sem þeir gera; henda sér í fangið á mér og ljúga mig fulla.

-Er eitthvað að? spurði Rikki.
-Af hverju? Er ég vond við þig eða eitthvað?
-Kannski ekki beint vond en það er eitthvað skrýtið. Þú kemur fram við mig eins og – eiginlega eins og ég sé lífrænt dildó.
-Eins og þú sért ókunnugur kannski?
-Já, eiginlega. Einhvernveginn svoleiðis.
-Kannski er ég með svarthol í sálinni.

Hann hugsaði sig aðeins um. Sagði svo:
-Ekki reyna að tala bókmenntamál við mig, ég skil það bara ekki.
Þá hló ég. Henti mér á bakið í alltof stóra rúmið hans og hló mig máttlausa þar til hann stóð upp og byrjaði að klæða sig.

-Komdu hingað strákur. Ekki klæða þig strax. Eva skal vera vanilla.
-Vanilla, þú, hnussaði hann, ég skal trúa því að þú sért ís en örugglega ekki með vanillubragði.
-Látt’ekki svona. Ég skal vera góð við þig. Á ég að fara í hjúkrunarkonubúning?
-Þú að leika hjúkku, fyrirgefðu en ÞAÐ hljómar BARA skerí. Værir vís með að draga upp sprautu og taka úr mér blóð eða gefa mér stólpípu eða eitthvað.
-Mér datt það reyndar ekki í hug en ef þú hefur gaman af því…
-Oj þér barasta subban þín.
-Ókei. Ég skal þá ekkert vera hjúkrunarkona, ekki einu sinni vanilla fyrst þú ert ekki kjarkaðri en þetta. Ég verð þá frostpinni áfram og komdu þér þá úr þessu aftur og leyfðu mér að horfa á þig.
-Þú ert svooo kinký.
-I never promised you a rose garden.

Hann fór ekki úr en hann settist hjá mér, horfði athugandi á mig og strauk fingurgómunum ástúðlega yfir kviðinn á mér.
-Er í alvöru allt í lagi?
-Já elskan, það er ekkert persónulegt þótt ég sé vond við þig. Þetta gerist bara óvart af því að þú ert karlmaður og ræður ekki við það. Meika bara ekki konseptið þú skilur.
-Ég á aldrei eftir að skilja þig Eva.
-Ég veit yndið mitt. Ég veit.

Best er að deila með því að afrita slóðina