Vetrarsólstöður

Endorfínuppspretta tilveru minnar er farin austur á land með nokkur eintök af bókinni minni í farteskinu en dagurinn þegar sólin kemur ekki einu sinni upp þarf samt sem áður ekki endilega að vera slæmur.

Bruggarinn mætti til fundar við mig í Perlunni í dag. Hann bað mín samt ekki. Enda hefði ég eiginlega átt að biðja hans þar sem það var ég sem bað hann að hitta mig, eftir að hann var búinn að leggja fyrir mig gátu sem hann leysti svo á undan mér (sko takið bara eftir snilli minni, nú er ég að gefa honum færi á að trúa því að mér þyki mikið til þess koma hversu gáfaður hann er).

Ég held samt að hann elski mig. Allavega fórnaði hann hádegisblundinum og gekk alla þessa leið í rigningunni til að hitta mig. Ok kannski var það ekki beinlínis hugsað sem ástarjátning af hans hálfu en það vantar rómantík í þessa bloggbók svo ég leyfi þessu að standa. Auk þess gæti það verið ómeðvituð rómantík sem gerir þetta ennþá rómantískara. Auðvitað kemur líka til greina að annaðhvort hafi íþróttaálfurinn hlaupið í hann eða að hann hafi fengið skyndilegt ógeð á kókópuffsi og gráðosti og séð venjulegan mat í hyllingum. Eða þá að hann er orðinn leiður á því að hitta konur eingöngu fyrir sjortara á almenningssalernum og var að vona að ég hefði tekið skrabblið með.

Ég hékk í Perlunni miklu lengur en ég raunverulega mátti vera að. Langaði miklu meira að kjafta við Bruggarann (og þá ekki síður að horfa á hann) en að vinna.
-Ég les venjulega ekki í rúminu en á svona degi, þegar sólin kemur ekki einu sinni upp og rignir í þokkabót, ætti maður ekki að fara á fætur, hvorki til að vinna né jóla heimilið. Maður ætti bara að kúra uppi í rúmi með góða bók og fara ekkert fram úr nema til að fá sér kakó.
-Nei ekki kakó, sagði hann, frekar gráðost.

Og á því augnablikið uppgötvaði ég „punktum-inn“ í honum; fleyginn. Áttaði mig allt í einu á því hvað það er sem gerir hann stundum svona yndislega fallegan. Það er þessi hógværa, hlýlega kímni. Matthías sálugi Viðar hélt því fram að fleygur listaverksins hyrfi þegar maður gerði sér grein fyrir því í hverju hann fælist en þótt Matthías væri snillingur hafði hann nú samt ekki alltaf rétt fyrir sér.

Uppfinningamaðurinn kom til að sækja pöntunina í kvöld. Hann spurði hvernig ég hefði það.
-Það gengur bara vel. Ég er allavega búin með þessa skynjara og er að vinna í auglýsingagerð allan daginn á morgun, tekjurnar hækka stöðugt svo ekki kvarta ég.
-En ertu hamingjusöm? spurði hann.
-Svo kapitalískt sem það hljómar þá stendur hamingja mín í beinu sambandi við fjárhagsstöðu mína. Á meðan ég lifi í sátt við KB banka og íbúðalánasjóð má rigna eldi og brennisteini yfir samskipti mín við Gvuð og menn án þess að það svipti mig svefni, sagði ég.

Hann brosti eins og sá sem veit betur.

Best er að deila með því að afrita slóðina