Scrabble eða tantra?

Ég held ég sé að koma mér upp áfengissýki. Ekki lengra síðan en á sunnudagskvöldið að ég drakk álíka mikið brennivín og ég hef gert síðustu 5 ár samanlagt og mig er strax farið að langa í meira. Kemur samt ekki til greina, ég þarf að jóla heimilið um helgina, laufabrauð á morgun, gjafakaup á sunnudaginn. Auk þess er kominn háttatími fyrir vinnuþrælkaðar húsmæður -og Bruggarinn á leiðinni. Til að skrabbla við mig altso. Ekki til að turra. Hugsanlegt að við tökum perraskrabbl samt. Þ.e.a.s. ef þetta drykkjufólk sem ruddist inn einmitt þegar hann ætlaði að fara að loka, hættir að þamba áfengi og pillar sig heim áður en ég sofna ofan í tölvuna.

-Þú kveikir nú á kertum og opnar rauðvínsflösku, sagði Spengilfríður, skiptir á rúmunum og hefur þetta svona huggulegt.

Glætan að ég ætli að opna rauðvínsflösku fyrir Bruggarann. Verð víst nógu tussuleg í fyrramálið samt. Aukinheldur á ég ekkert rauðvín. Rauðvínsbirgðir heimilisins kláruðust haustið 2003 þegar við Spúnkhildur gerðum heiðarlega tilraun til að læra að fíla rauðvín, rétt áður en hún flutti frá mér til að búa með karlmanni. Og það engum ógnarsjarmi heldur bara venjulegum karlmanni sem kann ekki að spá í tarot og hefur engan skilning á mikilvægi þess að mála hvíta rönd á neglurnar.

Kerti koma til greina en bara af því að ég er hvort sem er alltaf með kveikt á kertum.

Rúmfötin eru í fínu lagi, allavega mun skárri en sum þurrkrumpusængurver sem við þekkjum en auk þess reikna ég með að sofa ein í bæli mínu í nótt. Ekki af því að mér finnist neitt fráleitt að tantra Bruggarann en það er bara alveg af og frá að ég nenni að standa í riðliríi um miðjan nætur. Og mér segir svo hugur um að það virki ekki alveg á hann að bjóða honum gistingu út á það að fara bara að sofa og vakna svo um 6 leytið á laugardagsmorgni til að klára dæmið áður en ráðist er í laufabrauðsgerð. Þar fyrir utan tekur minnst klukkutíma að spila skrabbl og hálftíma að tantra af einhverju viti (ég ætti kannski ekki að nefna það, hætta á að hann verði því endanlega afhuga ef hann veit hvað ég get verið lengi að þessu). Ekki möguleiki að mig langi nógu mikið í töntru til að fórna skrabbli fyrir hana og ef mig vantaði sjortara hefði ég nú bara stungið upp á einum slíkum uppi í starfsmannakompu. Næstum viss um að Hótelstjórinn hefði fullan skilning á því og hefði áreiðanlega staðið vaktina á barnum með glöðu geði svona rétt á meðan.

Þetta er annars svona við nánari umhugsun stórgóð hugmynd. Spurning hvort ég á ekki að brenna niður eftir og tékka á því hvort Víkingurinn er enn á staðnum og til í að leysa Bruggarann af rétt á meðan ég fleka hann.

Nei annars. Ég efast um að hann myndi nenna að spila skrabbl á eftir og mig dauðlangar að spila.

Best er að deila með því að afrita slóðina