Jólahlaðborð

Hótelstjórinn bauð staffinu í jólahlaðborð. Missti sig í óhóflegt örlæti, keypti barinn og sagðist ætla að fara á hausinn með stæl. Jeminn hvað við drukkum mikið. Samt varð ég ekki full sem er í rauninni ótrúlegt í ljósi þess að ég drakk eins mikið frá syni mínum og Sykurrófunni og ég mögulega komst yfir. Bara svo helvíti erfitt að ætla að takmarka unglingadrykkju með því að stela úr glösum barnanna þegar þau fá ótakmarkað magn áfengis afgreitt á barnum án þess að borga fyrir það. Mesta furða að þau skyldu hvorugt drekka nógu mikið til að sæi á þeim. Segir mér að annaðhvort hafa þau meira drykkjuþol en ég eða að mér hefur tekist að drekka frá þeim meira en þau gerðu sér grein fyrir.

Ég hlýt að hafa skemmt mér vel. Allavega tolldi ég fram yfir miðnætti enda þótt krabbameinið rynni úr augunum á mér og sviði í lungun. Vínveitan gaf mér augndropa, stórsnjöll ráðstöfun að taka augndropa með sér á djammið og mun ég hér með ættleiða þá hugmynd.

Ekki varð úr að prógrammið sem ég eyddi dýrmætum bloggtíma mínum í að undirbúa yrði notað, söngfíllinn skrópaði og skemmtikrafturinn mætti gítarlaus og lét sig hverfa snemma. Sonur minn gerði reyndar tilraun til að flytja söngvana en náði ekki að yfirgnæfa skvaldrið. Ég dauðsé eftir tímanum sem fór í að setja þessa vitleysu saman, hefði getað notað hann til að blogga.

Áfengi hleypur í hormónana en því miður er fátt fagurra karlmanna á lausu í hinum gjörvilega flokki þjóna og kokka sem þetta kvöld þjóruðu á kostnað Tímavillta víkingsins. Bruggarinn harðneitaði að sinna mér, þrátt fyrir þrábeiðni mína, og bar því við að hann væri of drukkinn. Öllu reyna menn nú að ljúga að manni. Lambasteikin bauð sig að vísu fram en ég afþakkaði. Sá ég fyrir mér að ef ég tæki mann á hans aldri með mér heim yrði það til þess að hann og sonur minn grunnskólaneminn vektu yfir tölvuleik fram á miðja nótt og ekki vill maður nú svipta börnin svefni með því að draga heim leikfélaga um miðjar nætur.

Best er að deila með því að afrita slóðina