Deit í kvöld

Jæja stelpur, allar að krossa fingur fyrir Evu. Ég er að fara að hitta mann í kvöld. Veit ekki mikið um hann en hann er allavega sætur, a.m.k. á mynd. Á 3 börn sem er mikill kostur og það sem meira er, þau eru hjá honum, allavega í kvöld. Ég er ekki ennþá búin að spyrja hann hvort það sé bara tilviljun að hann sé með þau í miðri viku eða hvort þau búi hjá honum.

Vitringurinn situr við eldhússborðið og leikur sér að seglum.
-Hey sjáðu Eva, þetta er eins og þú og karlmenn, segir hann og færir annan segulinn nær hinum svo hann skýst í burt.

Góð líking verð ég að segja. Kannski það sé bara málið. Kannski hef ég bara verið að eltast við menn sem eru of líkir mér? Menn sem eru of seglumagnaðir? En ef ég er segull hvar eru þá allir þessir stálgæjar sem ég ætti að draga að mér? Soffía myndi segja giftir einhverri annarri segulkonu. Spákonan segir hinsvegar að þeir séu allir í Argentínu. Hún er að vinna að því að flytja inn nokkur stykki til að mæta ástarþörf íslenskra kvenna.

-Ekki gera íslenskir karlar það svo mikið er víst, segir hún, sannfærð um að argentínskir menn séu bæði rómantískari og betri elskhugar en þessir guðjónar okkar.

Best er að deila með því að afrita slóðina