Vill svo til

Ég nennti ekki út en spurði tarotspilin ráða. Þau lofuðu mér vonbrigðum, harmi og gengishruni ef ég færi út, dauða, tímasóun, og kvíðakasti ef ég sæti heima. Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni kom í heimsókn og bjargaði mér frá geðbólgu aldarinnar.

-Ég þarf að fara út á lífið en er ekki í neinu ástandi til þess. Mig bara VANTAR karlmann og sé ekki önnur ráð en að verða mér úti um skemmtistaðaeintak til bráðabirgða, jafnvel þótt ekki væri nema til einnar nætur.
-Er ekki einhver álitlegur kokkur eða þjónn að vinna með þér? sagði hann.
-Jújú, þeir eru hver öðrum sætari en bara eins og alltaf í þessum bransa, ýmist giftir eða alkhóhólistar nema hvorttveggja sé.
-Það er þetta fordómaleysi sem ég dái mest í fari þínu, sagði hann.
Nú, er það ekki rétt hjá mér? Eru ekki allir þjónar alkar og flestir kokkar?
-Eva ÉG er þjónn!
-Já og þú ert náttúrulega þessi dæmigerði meðaljón. Nei í alvöru talað, þeir sem eru á lausu eru allir á aldur við þig svo það gengur víst ekki.

Samt fórum við einmitt þangað. Að vísu var nokkurra Austfirðinga von á Nelly´s en ég reiknaði fastlega með að hrekjast þaðan undan reykjarsvælu eftir korter svo ég nennti því ekki. Það er praktískt að eiga vin eins og Endorfínstrákinn. Hann bauðst til að aka bílnum, halda mér félagsskap og láta sig svo hverfa ef eitthvað árennilegt birtist. Verður þó að játast að það árennilegasta innan dyra voru vinnufélagar mínir velgiftir.

-Ég hefði sennilega átt að kanna markaðinn áður en ég fór á barinn, sagði ég og leit yfir hóp samnorrænna sveitalúða sem sat þar að sumbli. Við fórum upp og þar sat Lambasteikin, dúðuð að vanda.
-Ég er að leita að árennilegum karlmanni, tilkynnti ég.
-Hér eru karlmenn, sagði hann.

Ég leit fyrir hornið og þar sat hópur drengja sem litu ekki út fyrir að vera deginum eldri en sonur minn Fatfríður.
-Er einhver þarna? spurði Endorfín, þegar ég kom aftur.
-Nei, bara verkfallsbörn, sagði ég.

Við fórum aftur niður. Ég dansaði við drukkinn Dana sem tók því sem ástarjátningu og lét mig ekki í friði eftir það. Setti ekkert fyrir sig þótt ég léti sem ég skildi ekki orð í dönsku og hafði víst takmarkaða trú á eigarrétti Endorfíndrengsins sem tók ofursmáum stelpuhöndum sínum um mínar og mændi á mig ástleitnum augum í hvert sinn sem sá danski nálgaðist.

-Prjónapeysan er sæt, sagði drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni, þegar ég lauk bjórnum og vildi fara heim. Hann hefur auga fyrir slíku strákurinn.
-Jájá, hann er sætur, en hann er bara Norðmaður, sagði ég.

Hann horfði tortrygginn á mig litla stund.
-Og þú komst þér upp kynþáttafordómum… hvenær???
-Kannski þegar ég kynnstist þeim karabiska sem var ólæs en neyddist til að læra að skrifa nafnið sitt „af því ekki hafa nein kennitala“, hugsaði ég en sagði það ekki, því auðvitað hef ég enga kynþáttafordóma.
-Hann gistir á hótelinu, útskýrði ég, og mig langar ekki að mæta Pólínu undir morgun og útskýra fyrir henni hvað ég sé að gera í vinnunni í rauðum kjól.

Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni tilheyrir annarri kynslóð. Fékk hvað eftir annað hláturskast yfir tónlistinni, sennilega vanari tekknó og reiv tónlist sjálfur. Gerði hreyfingarnar með YMCA og grenjaði af hlátri. Sonur minn Fatfríður kom að borðinu.
-Ég get haldið þjónsbrosinu alveg þangað til hann kemur með þetta lag. Það bara fer alveg með þetta, sagði hann. Endorfínstrákurinn samsinnti og þar sem ekkert hélt mér á staðnum heldur, ákvað ég að hleypa honum heim til konunnar sinnar.

Ég var rétt komin upp í rúm þegar síminn hringdi. Það var maðurinn sem vildi ekki eignast brauðrist með konunni sinni.
-Hvað er að frétta af þér skáldastelpuskott? sagði hann.
-Ætli ég geti ekki talist skáldkerlingarskott nú orðið, sagði ég.
-Hvaða urgur er nú í þér? Ertu karlmannslaus eða eitthvað?
-Hefur þú einhverntíma þekkt mig öðruvísi?
-Svona í alvöru, ertu á lausu?
-Af hverju, þekkir þú einhvern sem myndi henta mér?
-Nei, ég segi það kannski ekki.
-Og þú, ertu búinn að sætta þig við brauðristina?
-Ekki bara brauðristina, heldur vöfflujárnið líka, tengdamömmu og allan pakkann.
-Þú ert góðmenni mikið og til hamingju með vöfflujárnið, sagði ég, en hvernig dettur þér í hug að hringja í jafn næturglaða konu og mig á þessum tíma sólarhrings?

Hann þagði smástund. Sagði svo með seimingi:
-Það var bara það að hún gat aldrei sætt sig við pakkann minn. Það vill svo til að ég er enn einu sinni á lausu.

Best er að deila með því að afrita slóðina