Karlafar mitt

-Af hverju ert þú í þessum kjól? urraði sonur minn Hárlaugur.
-Það er nú við hæfi að fara þokkalega útlítandi á ballett og svo getur vel verið að ég fari á karlafar á eftir, sagði ég.

-Þú ert alltaf á karlafari, tuðaði hann.

Hmmm …

Ég skoðaði staðhæfinguna með opnum huga. Fannst þetta ekki alveg passa. Ekki einu sinni Haffi getur flokkast undir „karlafar“. Ég kynntist honum þegar hann var í vinnunni, fór með honum á kaffihús daginn eftir og hef ekki séð hann edrú síðan. Get bara ekki flokkað það sem „karlafar“ þótt ég hafi skriðið upp í til hans einu sinni í mánuði og alltaf þegar Hárlaugur er hjá pabba sínum eða í sveitinni.

Hmmm … Hvenær fór ég síðast á „karlafar“? Þrátt fyrir hrifningu mína á þessum dásamlegu verum sem geta einhent 50 kg ruslapoka og sveiflað honum léttilega yfir öxlina á sér, borað göt í veggi (ekki fingur) og skipt um bremsuklossa í bílnum, hef ég ekki farið út á lífið í leit að einnota eintaki, nema einu sinni síðan húsasmiðurinn dömpaði mér. Það var á meðan sonur minn Hárlaugur var í sveitinni og vissi ekkert af því og djammið varð ekki hrottalegra en svo að við stöllur sátum í mannlausu horni á mínum eigin vinnustað og ræddum það hversu vel giftar þær væru. Að vísu voru þær báðar á lausu morguninn eftir en það kom ekki til vegna djammgleði vorrar, heldur af því að þær reyndust bara þegar til kom, hreint ekki vera jafn vel giptar og þær héldu.

Að vel athuguðu máli komst ég að þeirri niðurstöðu að ég hef ekki pikkað upp einnota karlmann á skemmtistað síðan 1996. Ég ætlaði að nota hann sem plástur á ástarsorg en tókst ekki betur til en svo að ég fór að grenja um leið og hann snerti mig. Strákgreyið fór á límingunum, drakk allt rauðvínið mitt og varð pöddufullur. Drafaði eitthvað um að sofa bara en ekki „gera neitt“ og var hundleiðinlegur þótt ég væri alveg hætt að gráta. Ég ók honum heim enda rek ég ekki gistiheimili fyrir drukkna menn sem ráða ekkieinu sinni við einn grenjandi kvenmann.

-Það er haugalygi, sagði ég, hvenær hefur þú orðið þess var að ég fari á karlafar?
-T.d. varstu alltaf á karlafari með Húsasmiðnum, sagði hann.

Á karlafari? Það er sumsé „karlafar“ að deila rúmi með sambýlismanni sínum? Já ég er gæra. Ýlandi dræsa, brókarlaus gæra, og mikið djöfull er ég flott í táldráttarkjólnum. Sem aldrei hefur verið notaður til að táldraga einn eða neinn.

Best er að deila með því að afrita slóðina