Bruggarinn

Bruggarinn fer ekki að sofa þegar hann kemur seint heim. Hann sest við litla hvíta eldhússborðið sitt og fær sér kókópuffs. Ekki af því að honum þyki það sérstaklega gott heldur af því að það er fljótlegt og hann er einhvernveginn vanur því. Það eru óhreinir kókópuffsdiskar í vaskinum.

Hann ræður sunnudagskrossgátuna á meðan hann borðar. Stundum hugsar hann sig svo lengi um að kókópuffsið verður lint og þá klárar hann það ekki. Ef honum leiðist tekur hann gemsann sinn og flettir í gegnum fyrstu nöfnin í skránni. Eða þau síðustu. 90 af 100 eru kvenmannsnöfn en hann hringir aldrei í Ingur og Jónínur af því að hann byrjar alltaf annaðhvort fremst eða aftast og hann þarf sjaldan að fletta lengi.

Stundum verður hann einmana og þá hringir hann í Margréti vinkonu sína. Hún er samt ekki kærastan hans því til þess að verða kærasta Bruggarans er grundvallarskilyrði að hafa rassinn fyrir ofan lærin og Margrét er kannski ekki beint feit en samt ponkulítið óheppin að aftan. Yfirleitt er það samt einhver önnur dama sem kemur til hans.

Stelpurnar sem Bruggarinn sefur hjá vita sjaldnast mikið um hann. Samt vita nokkrar þeirra að hann borðar mikið kókópuffs. Sumar þeirra þvo nefnilega upp áður en þær fara. Honum finnst það dálítið sætt en það er hreint engin trygging fyrir því að hann hringi í þá sömu aftur.

Best er að deila með því að afrita slóðina