Vitringurinn

-Eva, heldurðu að geti verið að ég sé vitur? sagði Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni.
Ég virti hann fyrir mér og mátaði í huganum síðskegg á lukkutröllsandlit hans.
-Ég meina ekki svona gáfaður eða klár. Ég hef náttúrulega aldrei verið góður í stærðfræði eða neitt …
-Ég veit hvað þú átt við, sagði ég og reyndi að sjá fyrir mér telpulegan líkama hans í klæðum Gandálfs.

Hann er musa, það hef ég vitað síðan ég sá hann fyrst. Eitthvað í fari hans verður ekki skýrt með rökum. Nærvera hans gleður mig, veitir mér innblástur, nærir þennan takmarkaða skammt af tilfinningagreind sem ég fékk í vöggugjöf. Samt sakna ég hans aldrei. Musa, já vissulega en vitringur…??? Ég hef aldrei hugsað þetta svona fyrr en felast töfrar hans ekki einmitt í þessari barnslega einföldu lífsspeki hans sem ég hef ekki grænan grun um hvaðan hann hefur? Eins og heppilegustu viðbrögðin við hverjum vanda liggi hreinlega í augum uppi. Eins og til sé praktískt svar við hverri spurningu.

Þegar hann var 15 ára og bekkjarfélagnir ráðgerðu að kanna undra áfengisvímunnar skoraðist hann undan þátttöku.
-Nenni ekki að lenda í veseni út á það, nógur tími til að tékka á þessu seinna. Þegar ég verð tvítugur ætla ég að loka mig inni í bátaskýli með viskýflösku. Ef verður gaman ætla ég að verða fyllibytta. Ef verður ekki gaman er það sönnun þess að það er einhver önnur breyta sem gerir fyllirí skemmtileg og ef svo er ætla ég að finna hana.

Hann var 18 ára og áttaði sig á því að skortur hans á samúð, blygðunarkennd og virðingu fyrir öðru fólki hefði ákveðna ókosti í för með sér. Hans niðurstaða;
-Hef bara ekki þessa tilfinningu fyrir góðu og illu sem aðrir virðast hafa, það gleymdist víst alveg að ala mig upp. Ég reyni þá bara að herma eftir þeim sem eru góðir. Af hverju ég vilji vera góður fyrst ég hef það ekki í mér? Nú af því að góðu fólki vegnar betur.

19 ára.
-Mér finnst bara ágætt að láta stjórna mér. Fínt að hún sjái um fjármálin af því að ef ég á peninga breytist ég í eitthvað svona gráðugt og stjórnlaust. Mér líkar ekki vel við sjálfan mig þannig. Ég meina -það gleymdist að ala mig upp og bara heppni að hún sluli nenna að standa í því.

23ja ára.
-Ég kýs návist hennar, þessvegna hlýt ég að elska hana, flóknara er það nú ekki.

-Já hjartað mitt, sagði ég, það er nefnilega einmitt það. Þú ert nefnilega vitur.

Best er að deila með því að afrita slóðina