Leið

-Mig vantar félagsskap! kveinaði ég.
-Ég er hér, sagði sonur minn Fatfríður.
-Elskan, þú ert einn af mínum allra bestu vinum en í augnablikinu vantar mig vinkonu, þú veist stelpu, og Spúnkhildur er í einhverju satanísku afmæli og Sigrún stendur í húsaviðgerðum.
Af örlæti sínu bauð hann mér kærustuna sína. Ég afþakkaði.
-Af því að mig langar að sitja í eldhúsinu og draga tarotspil og lakka neglurnar og tala illa um karlmenn. Og þar sem þú ert eini karlmaðurinn sem hún hefur reynslu af gengi það ekki upp, því mér þætti ekkert skemmtilegt að heyra hana tala illa um þig.

Fatfríður hló og fannst það stórmerkilegt áhugamál kvenna að úthúða karlmönnum og koma saman sérstaklega í þeim tilgangi. Hann spurði hvort ég ætti virklega ekki nema tvær vinkonur og jú vissulega þekki ég fleiri konur en hef bara ekki hitt þær svo lengi.

Einu sinni átti ég sæg af vinkonum. Það var áður en ég gerðist sandlóa. Og ég gæti vel heimsótt þær og það yrði ekkert leiðinlegt en það tæki 1-2 tíma að endunýja kynnin, rekja sögu síðustu ára í grófum dráttum og ná tengingu og í augnablikinu þarfnast ég einhverrar sem er þokkalega með á nótunum og helst ekki hamingjusamlega gift. Sonur minn Fatfríður stakk upp á ömmu sinni, þótt hann viðurkenndi reyndar að líklega væri hún hamingjusamlega gift.
-Hrædd um að það gengi ekki, sagði ég. Einn þeirra karlmanna sem mig langar að úthúða er hann pabbi þinn og það væri ekki sanngjarnt að ætlast til þess að amma þín tæki undir það sem ég hef um hann að segja á þessari stundu. En þar fyrir utan, hefurðu nokkurntíma heyrt ömmu þína tala illa um nokkurn mann?
-Já einu sinni, sagði sonur minn Fatfríður. Hún kallaði fólkið á neðri hæðinni „þau í neðra“ og sagði að þau væru „frekjulufsur, já barasta“. Það var erfiður dagur og ég var lengi að jafna mig.

Þegar bróðir Húsasmiðsins ákveður svo að eyða kvöldinu með konunni sinni en ekki mér er fokið í flest skjól. Fjandans ósvífni af þessum vinum mínum að eiga maka, börn og aðra vini, fyrir nú utan það að vilja frekar mæta í vinnuna en að sinna félagslegum þörfum mínum. Hvar er eiginlega allt þetta einhleypa og pipraða fólk sem er líka að leita að félagsskap?

Ég heimsótti kaffihúsavininn og við drógum engin tarotspil, lökkuðum ekki á okkur neglurnar og töluðum ekkert illa um karlmenn. töluðum reyndar ekki illa um neinn. Eftir á að hyggja man ég ekki almennilega hvað við töluðum um svo það hlýtur að hafa verið prýðilegt, innihaldsrýrt útrásarspjall. Ég held ég sé að sökkva í þunglyndi. Mig langar að kúra hjá karlmanni en sá eini sem mér kemur til hugar er Haffi. Hann er týndur, fluttur og ég veit ekki hvar hann er. Bróðir minn bauðst til að finna hann fyrir mig.

Ég er að hugsa um að búa mér til nikk á einkamál.is. Vogun vinnur, vogun tapar, þótt þeir séu allir apar… og nú vantar mig rímorð …hrapar, skapar, papar, golgapar, stígvélapar… Það er sem ég segi, ég á eftir að verða þjóðskáld.

Best er að deila með því að afrita slóðina